„Féll á tækniatriði“

„Þetta er hluti af lærdómsferli borgarinnar,“ segir Dagur.
„Þetta er hluti af lærdómsferli borgarinnar,“ segir Dagur. Samsett mynd

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir fjölda íbúða í útleigu til ferðamanna í Bríetartúni vera hluta af lærdómsferli borgarinnar. 

Íbúðirnar í byggingunni voru upphaflega hugsaðar sem viðbót við almennan markað en fjöldi íbúða er nú notaður undir skammtímaleigu til ferðamanna, eins og greint var frá á mánudag. 

„Við vildum girða betur fyrir þetta“

Árið 2018 synjaði umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar að veita gistileyfi fyrir 38 íbúðir við Bríetartún 9-11. Í húsinu eru alls 94 íbúðir. Ákvörðunin var kærð og synjuninni snúið við.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið á sínum tíma kom fram að sennilega væri án fordæmis að svo margar íbúðir í nýju húsi væru leigðar út til ferðamanna.

„Þetta er hluti af lærdómsferli borgarinnar. Við vildum og viljum stemma stigu við því að hlutfall íbúðarhúsnæðis þar sem fólk býr sé sem allra hæst, sérstaklega í íbúðahverfum. Þarna töpuðum við kærumáli á sínum tíma,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

„Við vildum girða betur fyrir þetta en það féll á tækniatriði, ef svo má að orði komast, þannig að við höfum gætt þess í seinni tíma deiliskipulagsáætlun að taka það bara ofboðslega skýrt fram þar sem við viljum ekki að það sé leiga til ferðamanna og skammtímaleiga.“

Búin að læra af reynslunni

Dagur segir borginni hafa tekist að sporna við því að tilfellið í Bríetartúni, þar sem fyrirtæki kaupir upp nýjar íbúðir fyrir skammtímaleigu, einkenni miðborgina.

„Það var m.a. farið í dómsmál gegn okkur varðandi Hafnartorgið þar sem að verktakar þar vildu vera með meira í útleigu til ferðamanna. En við vorum þá búin að læra af reynslunni í Bríetartúni og setja inn skýr ákvæði í deiliskipulagið.“

Telur til bóta að borgin fái ríkari heimildir

Hann segir Reykjavíkurborg standa framarlega í Evrópu hvað varðar að nota skipulag til þess að stýra hvar megi vera með íbúðir alfarið í aribnb leigu og hvar ekki.

„Almenna reglan er sú að [heilsársleiga] er óheimil í íbúðahverfum. Það sem er þó heimilt, og byggir á lögum frá Alþingi, er að þú mátt leigja út frá þér í allt að 90 daga,“ segir Dagur.

„Ég held að það væri mjög til bóta ef að Reykjavík og önnur sveitarfélög fengju ríkari heimildir til þess að taka afstöðu til þess hvort 90 dagar séu rétta tímalengdin eða hvort það ætti að vera styttri tími,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert