Ungt fólk verður fyrir miklu máláreiti

Katrín hyggst efna til sam­keppni hjá ungu fólki um ís­lenskt …
Katrín hyggst efna til sam­keppni hjá ungu fólki um ís­lenskt efni á sam­fé­lags­miðlum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra hyggst efna til sam­keppni hjá ungu fólki um ís­lenskt efni á sam­fé­lags­miðlum sem höfðar til allra kynja. Markmiðið er að efla íslenska tungu og auka aðgengi að íslensku efni á samfélagsmiðlum. 

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undir lok kynningarfundar ráðherranefndar um málefni íslenskunnar. Þar voru kynnt áherslumál og forgangsverkefni nefndarinnar,sem lögð verða fram í þings­álykt­un­ar­til­lögu um aðgerðaráætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu 2023 til 2026.

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og Guðmund­ur …
Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, kynntu í dag þings­álykt­un­ar­til­lögu, um aðgerðaráætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu 2023-2026. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innfæddir ekki minna viðfangsefni en innflytjendur

Á kynningarfundinum bar Katrín upp þá spurningu hvort íslenskan væri gjaldgeng á öllum sviðum samfélagsins. Í samtali við mbl.is að loknum fundinum sagði hún svarið tvíþætt. 

„Annars vegar erum við með þessa miklu fjölgun fólks af erlendu bergi, sem auðvitað skapar ákveðnar áskoranir. En við erum líka með unga fólkið okkar sem er fætt hér. Það verður fyrir ofboðslega miklu ensku máláreiti, sem verður til þess að unga fólkið hættir að nota íslenskuna á sumum sviðum. Það er ekkert minna viðfangsefni,“ segir Katrín sem veltir samskiptum á samfélagsmiðlum mikið fyrir sér og hvort íslenska tungumálið sé notað þar.  

Ákveðið efni sem er ekki að finna á íslensku

Spurð hvernig hún sér fyrir sér að efla íslenska tungumálið á samfélagsmiðlum, samanber samkeppni um íslenskt efni á samfélagsmiðlum, segist Katrín til að mynda vonast til að gerð verði rannsókn á því hverjir það eru sem tala íslensku á samfélagsmiðlum og til hvaða hóps þessir einstaklingar ná. Jafnframt hvaða erlenda efni það er sem nýtur mestra vinsælda. 

„Maður sér að það eru ákveðnir áhrifavaldar, til dæmis á sviði heilsuræktarm sem tala íslensku og hafa stóran fylgjendahóp. Síðan sjáum við líka ákveðna menningarkima sem eru eiginlega alfarið á ensku,“ segir Katrín og nefnir hnefaleika sem dæmi. 

Stuðla að íslenskri afþreyingu á samfélagsmiðlum

„Ég er ekki með neina vísindalega könnun á þessu, en maður sér að það eru ákveðnir geirar þar sem íslenskir áhrifavaldar hafa náð til unga fólksins, en annars staðar ekki.“

Því hefur Katrín hug á því að efna til samkeppni hjá ungmennum um ís­lenskt efni á sam­fé­lags­miðlum sem höfðar til allra kynja. Hluti af því verkefni felst í að kanna hvaða erlenda efni unga kynslóðin sækist í að horfa á og hvetja til þess að sambærilegt efni verði útfært á íslensku.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert