Bílastæðasjóður gaf út sektir á einkalóð

Bílastæðið sem um ræðir er inni á einkalóð Þjóðleikhússins.
Bílastæðið sem um ræðir er inni á einkalóð Þjóðleikhússins. Ljósmynd/Pálmi Gestsson

Starfmenn Þjóðleikhússins hlutu sektir frá Bílastæðasjóð inni á einkalóð leikhússins. Þetta staðfesta Pálmi Gestsson leikari og Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins. 

Pálmi vandaði Bílastæðasjóði ekki kveðjurnar í færslu á Facebook í gær, vegna 10.000 króna sektar sem hann fékk á einkabílastæði Þjóðleikhússins. 

Í samtali við mbl.is segir Pálmi að sér hafi borist þau svör frá Bílastæðasjóði að svæðið flokkist sem gangstétt. Því sé það í bága við umferðarlög að leggja þar, hvort sem það sé inni á einkalóð eður ei.

Pálmi Gestsson leikari.
Pálmi Gestsson leikari. mbl.is/Ásdís

Lítið skúmaskot inni á lokaðri lóð 

Pálmi segir það aftur á móti af og frá enda sé mikill skortur á bílastæðum fyrir starfsmenn og svæðið sem um ræðir sé lítið skúmaskot inni á lokaðri lóð og því enginn sem gangi þar um.

„Þetta er að efna til ófriðs að óþörfu,“ segir Pálmi og bætir við að starfsmenn hafi ávallt lagt þar.

Hann segir svipuð tilvik hafa komið upp fyrir nokkrum árum, en þá hafi Þjóðleikhúsið merkt svæðið með málningu og skilti sem bílastæði inni á sinni einkalóð. 

Þetta staðfestir Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, en hún segir að sektunum hafi linnt eftir að bílastæðaskiltið var sett upp.  

Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins.
Steinunn Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins.

Töldu sig í rétti til að nota stæðin

„Fram að þessu höfum við talið okkur í rétti til að nota lóðina, meðal annars undir bíla, en Bílastæðasjóður er ekki sammála því og hefur sektað eitthvað af starfsfólkinu okkar,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Hún segir allt svæðið tilheyra einkalóð Þjóðleikhússins, sem sé lokað með aðgangsstýrðu hliði og stjórnendur leikhússins því staðið í þeirri trú að þeir mættu haga bílastæðamálum með þessum hætti.

Steinunn segir leikhúsið nú taka deiluskipulagið til skoðunar enda hafi það ekki verið þeirra ásetningur að brjóta umferðarlög. Ef svo reynist að svæðið flokkist sem gangstétt muni leikhúsið íhuga að biðja um að fá því breytt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert