Að spila púkk var hluti af jólunum

„Þetta var alltaf rosalega skemmtilegt og langafi var manna kátastur …
„Þetta var alltaf rosalega skemmtilegt og langafi var manna kátastur þegar spilað var púkk.“ mbl.is/Hákon Pálsson

„Spilið kom inn í fjölskylduna okkar með langafa barnanna minna, Jóhanni Ingva Guðmundssyni, en hann hafði ofboðslega gaman af því að spila púkk með stórfjölskyldunni á jólunum. Ekki er vitað hvaðan spilið kom upphaflega inn í hans fjölskyldu, en dóttir hans segir líklegast að hann hafi kynnst þessu spili þegar hann var ungur maður í skóla á Hvanneyri.

Jóhann Ingvi var enn lifandi þegar ég kom inn í föðurfjölskyldu barnanna minna og hann naut þess að spila við barnabörnin,“ segir Berglind Sigurðardóttir sem tók sig til og lét hanna þetta gamla góða púkk-borðspil upp á nýtt og gefur það nú sjálf út fyrir jólin, svo aðrir geti notið þess að koma saman og spila.

„Ég kynntist spilinu fyrir margt löngu, fyrir rúmlega fjörutíu árum, heima hjá þáverandi tengdaforeldrum mínum, Guðmundi Jóhannssyni og Arnbjörgu Þórðardóttur á Kirkjuveginum á Selfossi. Þar var spilið alltaf tekið fram um jólin og spilamennskunni fylgdi mikið fjör og hlátur. Ekkert spilaspjald var til, heldur voru reitirnir krotaðir á smjörpappír sem rúllað var út þegar spilamennskan hófst.“

Mikið sprell og mikið hlegið

Berglind segir þær margar og góðar minningarnar sem tengjast púkkspilinu, og þá ekki aðeins samveran og spilafjörið, heldur líka uppátækin.

„Þetta gat þróast í óvæntar áttir, til dæmis þegar einhverjir sem voru búnir með alla peningana sína í spilinu fóru að rífa af sér eyrnalokka, armbandsúr, gleraugu og önnur verðmæti, og nota sem ígildi peninga, því allir vildu vinna pottinn, eða púkkið, eins og það er kallað. Slíkt sprell skapaði mikla stemningu og hlátur, en allir fengu samt sína eyrnalokka og skart til baka í lok spilsins,“ tekur Berglind fram. Hún segir að hjá tengdaforeldrum sínum forðum hafi gamlar íslenskar flotkrónur, túkallar og fleiri gamlir peningar verið notaðir í spilinu. Einnig voru keyptar birgðir af eldspýtum fyrir jólin og þær stundum notaðar til viðbótar.

Á vefsíðunni pukk.is er hægt að kynna sér nánar spilareglur og kaupa spilið.

Nánari umfjöllun má finna í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert