Landið við Svartsengisvirkjunina hefur nú risið hærra en það var áður en skjálftahrinan hófst 25. október, sem náði hámarki með myndun kvikugangsins 10. nóvember og olli þá gríðarmiklu og hröðu landsigi.
Þetta sýna GPS-mælingar Veðurstofunnar, en af þeim má ráða að landið hafi risið upp fyrir þennan svokallaða núllpunkt á síðustu tveimur dögum.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, hefur sagt í samtali við mbl.is að hann telji að landrisið á svæðinu geti verið blanda af tektónískum hreyfingum og kvikusöfnun.
Í Morgunblaðinu í gær sagði Þorvaldur að jarðhræringarnar afdrifaríku, sem áttu sér stað föstudaginn 10. nóvember, kynnu einnig að hafa stækkað aðfærsluæð kvikunnar frá dýpra hólfi og yfir í það grynnra.
Af því myndi leiða að meiri kvika flæðir ofar í jarðskorpuna nú en áður.
Fimmtudaginn 30. nóvember vantaði um þrjá sentimetra í að landið næði þeirri stöðu sem það var í 25. október. Þá hófst jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga.
Í kjölfar fyrstu skjálftanna reis landið hratt, en þó ekki á jafn miklum hraða og það hefur gert eftir atburðina 10. nóvember. Þá var landrisið rúmlega tíu sentimetrar á sextán dögum.
Mikið landsig varð í kjölfar þess að kvika hljóp frá Svartsengi austur undir Grindavíkurveg og í Sundhnúkagígaröðina. Þá seig land um 35 sentimetra.
Eftir 12. nóvember tók land að rísa á ný og hefur hraðinn verið metinn um tvöfalt meiri en áður.