Framboðsskortur á metaneldsneyti veldur verðhækkun

Frá metanafgreiðslustöð Olís á Akureyri.
Frá metanafgreiðslustöð Olís á Akureyri. Ljósmynd/Norðurorka

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís, segir að hækkun á verði metaneldsneytis á afgreiðslustöð Olís á Akureyri sé tilkomin vegna gjaldskrárhækkunar frá Norðurorku, metaneldsneytisbyrgja Olís á Norðurlandi.

Segir hann að Olís taki hluta af högginu á sig í ljósi aðstæðna.

Málið snýst um metanframboð á Norðurlandi sem framleitt er í Glerárdal.

Minna framboð krefst flutnings

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, segir að metanmyndun sé að minnka, sem sé jákvætt frá umhverfissjónarmiðum.

Eyþór segir í samtali við mbl.is að um leið minnki framboðið á svæðinu þannig að Norðurorka hafi neyðst til að flytja metan frá Sorpu og norður í land.

„Ef við héldum að það yrði ekki meira metan framleitt á Norðurlandi þá myndum við væntanlega ekki gera þetta, heldur ráðleggja fólki að hætta að nota metan en það er í deiglunni og í undirbúningi að koma á fót líforkuveri á Norðurlandi eystra.“

Hann segir starfsemi fyrirhugaðs líforkuvers ekki vera óskylda þeirri sem fólk þekkir frá Gaja, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Reykjavík. Þar muni fara fram söfnun á sláturúrgangi og úrgangi á svæðinu og þannig sköpuð verðmæti.

Verja markaðinn í trú um framleiðslu í framtíðinni

„Okkur finnst mikilvægt að verja þann markað sem nú þegar er svo hann hverfi ekki í þeirri trú að hér verði metanframleiðsla í framtíðinni á svæðinu.“

Eyþór segist ekki hafa neinar forsendur til að svara spurningunni um það hvort fyrirsjáanlegt sé að metaneldsneytisverð muni lækka ef framboðsvandinn verði leystur. Hann segir kostnaðinn felast annars vegar í framleiðslukostnaði metans hjá Norðurorku og hins vegar flutningskostnaði metans frá Sorpu og norður í land.

„Þetta þarf að standa sjálft undir sér. Veitufyrirtækið má ekki verið að niðurgreiða svona. Við erum heldur ekki að hagnast á þessu,“ segir Eyþór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert