Covid hafði áhrif á árangur

Um leið er mikilvægt að taka fram að þrátt fyrir …
Um leið er mikilvægt að taka fram að þrátt fyrir að tekist hafi að halda skólum að mestu leyti opnum á Íslandi hafði faraldurinn engu að síður margvísleg áhrif á nemendur, kennara og skólastarf, segir í skýrslunni. Ljósmynd/Colourbox

Nemendur sem tóku þátt í PISA 2022, samantekt um læsi og farsæld 15 ára barna á Íslandi, voru á 14. ári þegar heimsfaraldur Covid-19 reið fyrst yfir og raskanir urðu á námi þessara nemenda í öllum þátttökulöndum. Þróun frammistöðu í PISA bendir til að þessar raskanir hafi bitnað á árangri.

Þetta kemur fram í samantektinni.

Bent er á, að meðaltal OECD-ríkja hafi lækkað talsvert bæði í stærðfræðilæsi (15 stig) og í lesskilningi (10 stig) frá síðustu fyrirlögn og um sé að ræða stærri breytingar á meðaltölum en áður hafa komið fram í PISA.

„Frammistaða lækkaði enn meira að jafnaði á Norðurlöndunum og lækkun var töluverð á Íslandi eða á bilinu 28–38 stig á sviðunum þremur. Í ljósi þess að Ísland var meðal þeirra sex þátttökulanda sem lokuðu skólum í skemmstan tíma er ólíklegt að lækkun hér á landi megi skýra að öllu leyti með áhrifum heimsfaraldursins. Um leið er mikilvægt að taka fram að þrátt fyrir að tekist hafi að halda skólum að mestu leyti opnum á Íslandi hafði faraldurinn engu að síður margvísleg áhrif á nemendur, kennara og skólastarf,“ segir í skýrslunni. 

Líður almennt vel og upplifa einelti sjaldan

Þá kemur fram, að fimmtán ára nemendum á Íslandi líði almennt vel í skólanum, þeir séu jákvæðir í garð kennara sinna og upplifa einelti tiltölulega sjaldan. Á þessum mælingum hafi nemendur hér á landi komið betur út en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og í ríkjum OECD gerðu að jafnaði.

Spurningalisti PISA um að tilheyra í skólanum metur líðan nemenda og tengsl þeirra í skólanum. Ólíkt flestum þátttökulöndum voru svör íslenskra nemenda við þessum spurningalista í heild lítið eitt jákvæðari en í síðustu fyrirlögn PISA, að því er segir í skýrslunni.

„Þannig voru 77% nemenda í PISA 2022 til dæmis sammála að þeir ættu „auðvelt með að eignast vini í skólanum“ en hlutfallið var 70% í PISA 2018. Mikill meirihluti nemenda á Íslandi eru sammála því að kennarar séu vingjarnlegir við sig (91%), sýni sér virðingu (89%), og að kennarar hafi áhuga á vellíðan þeirra (80%). Þá benda svör við spurningum um einelti í skólanum til þess að íslenskir nemendur upplifi einelti tiltölulega sjaldan samanborið við önnur lönd. Þannig sögðust aðeins 3% lenda í því nokkrum sinnum í mánuði eða oftar að vera „ógnað af öðrum nemendum“ í skólanum og 7% að aðrir nemendur dreifðu um þá „andstyggilegum kjaftasögum“.“

Í PISA er einnig spurt um almenna lífsánægju og þar eru íslenskir nemendur yfir meðaltali OECD-ríkja. Lífsánægja 15 ára nemenda á Íslandi og í flestum OECD-ríkjum hefur hins vegar verið á niðurleið síðasta áratug samkvæmt mælikvarða PISA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert