Fráleitt að gera skólana að blórabögglum

Eiríkur segir mikilvægt að einblína ekki einungis á skólakerfið í …
Eiríkur segir mikilvægt að einblína ekki einungis á skólakerfið í umræðunni um niðurstöður könnunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málumhverfið hér á landi hefur breyst mikið á síðustu árum, sem veldur því að einhverju leyti að vægi íslenskunnar minnkar. Niðurstöður Pisa-könnunarinnar má því að mörgu leyti rekja til stöðu íslenskunnar.

Þetta segir Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emeritus í ís­lenskri mál­fræði, í samtali við mbl.is. Hann segir niðurstöður könnunarinnar ekki koma honum á óvart, en þó mikilvægt að líta ekki á Pisa sem einokað fyrirbæri.

„Allir þessir þrír meginþættir, lesskilningur, náttúrufræði og stærðfræði, þetta byggist í raun og veru á lesskilningi því að náttúru- og stærðfræðiverkefnin, þetta eru orðaverkefni þannig að þetta hangir allt saman.“

Unglingar mikið í ensku málumhverfi 

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um að orðaforði fari minnkandi, segir Eiríkur. Hann bendir þó á að engar rannsóknir liggi þar að baki, heldur byggi það á tilfinningu fólks.

Þrátt fyrir það segir hann ljóst að unglingar séu mikið í ensku málumhverfi, það hafi þær afleiðingar að vægi íslenskunnar minnkar. Auk þess lesi börn og unglingar minna en áður og því þurfi niðurstöðurnar ekki að koma á óvart.

Í því samhengi segir hann vert að hafa í huga að Ísland sé ekki eina landið sem lækkar milli ára í Pisa-könnuninni, fleiri lönd hafi líka gert það. Þrátt fyrir það lækkaði Ísland mest, segir hann og bendir aftur á enskuna í málumhverfinu.

Merki um málfarslega stéttaskiptingu

Það sem er nýtt í niðurstöðum könnunarinnar eru merki um málfarslega stéttaskiptingu, segir Eiríkur og útskýrir að niðurstöðurnar gefi vísbendingar um að meiri fylgni sé milli menntunar foreldra en áður hefur sést.

„Börn sem eiga foreldra sem eru í lægri tekjuhópum, með minni menntun, koma verr út. Það er náttúrulega mjög alvarlegt, vegna þess að það bendir til þess að málfarsleg stéttaskipting sé að aukast, sem er ekki gott vegna þess að það heldur áfram. Þessir unglingar sem koma þá illa út, detta kannski út úr skóla og eru þá fastir í láglaunastörfum þegar þeir fara á vinnumarkaðinn. Síðan þegar þau eignast börn þá heldur þetta áfram,“ segir hann.

Margþættur vandi

Eiríkur segir mikilvægt að einblína ekki einungis á skólakerfið í umræðunni um niðurstöður könnunarinnar. Hann segir vandamálið margþætt og að vitaskuld beri foreldrar mikla ábyrgð á því að halda málinu að börnunum.

„Auðvitað er það hlutverk skólanna að halda fjölbreyttum textum að unglingum og láta þau lesa, en það væri alveg fráleitt að gera skólana að einhverjum blórabögglum. Þetta er fyrst og fremst ábyrgð samfélagsins, við þurfum að sjá til þess að breyta viðhorfinu og halda íslenskunni að börnum,“ segir Eiríkur og bætir við:

„Ég sagði einu sinni að það besta sem við gætum gert til að bæta íslenskuna væri að stytta vinnutíma fólks, vegna þess að samtal foreldra við börnin sín skiptir öllu máli fyrir málþroskann,“ segir hann. Enda sé mikil fylgni milli málþroska barna á þeirra fyrstu árum og þess hvernig þeim gengur þegar þau verða unglingar.

Þurfum að skapa skilyrði til að byggja upp málþroska

Í því samhengi segir hann það vitað mál að margir foreldrar, ekki síst þeir foreldrar sem vinna mikið, freistist til að að setjast fyrir framan sjónvarpið þegar þeir koma heim og kveikja þá jafnvel á afþreyingu sem ekki endilega er á íslensku.

„Þetta er það sem við þurfum að horfa á. Við þurfum að skapa skilyrði fyrir því að það sé hægt að byggja upp málþroska hjá ungum börnum,“ segir Eiríkur og leggur áherslu á íslenskunni sé haldið að börnum. Til að mynda með aukinni framleiðslu á íslensku efni, sem í senn er áhugavert.

Afþreyingarefnið þarf að vera áhugavert

Stjórnvöld þurfa að grípa til þeirra ráðstafanna sem þarf til að efla íslenskuna, segir Eiríkur og bætir við að ekki sé nóg að fara í átak, enda virðist þau ekki skila miklum árangri. Sem dæmi segir hann að árið 2015 hafi verið farið af stað með læsisátak til að bregðast við slakri niðurstöðu Pisa það árið, en þrátt fyrir það sé árangurinn eins og raun ber vitni.

„Þau þurfa að gera sér grein fyrir því að það kostar pening [að efla tunguna], það þarf að leggja miklu meira í það. Til þess að börn og unglingar þjálfist í íslenskunni þá þurfa þau að hafa aðgang að allskonar efni á íslensku, fræðsluefni og afþreyingarefni, og það þarf að búa það til,“ segir Eiríkur sem leggur áherslu á að efnið sé áhugavert enda velji unglingar ekki afþreyingarefni af því að það er íslenskt, heldur vegna þess að það er áhugavert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert