Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að niðurstöðurnar úr PISA-könnuninni 2022, séu verri en vonast hafði verið eftir.
Magnús tók við formennsku hjá Kennarasambandi Íslands fyrir rúmum tveimur árum en hann starfaði áður sem skólastjóri Seljaskóla í Breiðholti.
„Þetta eru niðurstöður sem ganga lengra en við höfðum verið að vonast eftir. Það er búin að vera þróun í PISA verkefninu síðustu 10-15 árin þar sem Ísland og reyndar öll Norðurlöndin ásamt mörgum OECD ríkjum hafa verið á niðurleið,“ segir Magnús Þór við mbl.is.
Magnús segir að niðurstöðurnar séu hálfgerður vegvísir sem verður tekinn alvarlega í öllu skólakerfinu.
„PISA er einn mælikvarði og við þurfum lesa niðurstöðurnar saman við annað sem er í gangi. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þarna er mælitæki sem samfélagið horfir til og við munum klárlega rýna betur ofan í gögnin, bæði veikleika og þessa styrkleika sem eru sem betur fer að haldast er snúa að líðan og umgjörð barna og tengsl þeirra við skólana. Það er jákvætt,“ segir Magnús.
Magnús segir að það sem komi á óvart er að þar sem PISA-könnunin hafi verið í gangi í rúm 20 ár þá hafi umræðan verið mest um lesskilning.
„Frá 2009 þar sem við höfum verið að fara niður hefur verið mikil vinna lögð í lesskilning en einhverra hluta vegna virðist það ekki hafa skilað sér. Það skiptir mjög miklu máli að við höldum áfram að rýna í þessa stöðu. Við erum með áherslur líka frá 2009 í okkar aðalnámskrá sem miðar að minna vægi heildarnámsmats og eitt af því sem hefur verið rætt á vettvangi Norðurlandanna er eins og prófið er uppsett hvort það hafi áhrif. Stórt langt skriflegt próf sem íslenskt skólakerfi hefur svolítið ýtt til hliðar í grunnskólanum vegna nýrrar námskrár.“
Magnús segir að skólastarfið sé alltaf áskorun og honum hafi fundist á síðustu árum að umræðan um það verið að þróast í þá átt sem kennarar vilji sjá hana fara.
„Við viljum að allir séu við borðið til lengri tíma. Það er margoft búið að rannsaka það að átak í skólastarfi skilar í mesta lagi engum skaða. Tímabundið stutt átak sem á að vera skyndilausn er ekki málið heldur þurfum við heildræna umræðu um það hvað við viljum fá útúr skólakerfinu okkar og hvar PISA getur nýst okkur þar.“