Fjölga nemendum í læknis- og hjúkrunarfræði

Samkomulaginu er ætlað að ráðast í aðgerðir sem fjölgi þeim …
Samkomulaginu er ætlað að ráðast í aðgerðir sem fjölgi þeim sem mennti sig í raunvísindum, tæknigeirum og heilbrigðisvísindum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir Ísland standa frammi fyrir ýmsum áskorunum sem háskólanir þurfi að mæta, en í dag skrifaði hún ásamt Jóni Atla Benediktssyni undir samkomulag um sókn í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum. 

Í samkomulaginu er 500 milljónum króna úthlutað til heilbrigðisvísindasviðs og verkfræði-og náttúruvísindasviðs og segir Áslaug markmið þess vera að ráðast í aðgerðir í takt við þá sókn sem samfélagið þurfi í að fjölga þeim sem mennti sig í raunvísindum, tæknigeirum og heilbrigðisvísindum.

Hún segir samkomulagið þegar hafa verið fjármagnað og því sé ekki um viðbótarútgjöld að ræða. 

Læknanemum fjölgað um 50% á fjórum árum

Í samkomulaginu er þess getið að ætlun samkomulagsins sé meðal annars að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 75 á árinu 2024 og svo upp í 90 í áföngum fram til ársins 2028. Jafnframt sé ætlunin að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði úr 120 í 150 frá og með hausti 2025. 

„Það er auðvitað stór áfangi að ná að fjármagna það að fjölga nemendum í læknisfræði og hjúkrunarfræði. Það hefur verið kallað verulega eftir því vegna þess að okkur vantar fleiri heilbrigðismenntaða hvort sem litið er til mannfjölda, þróunar eða öldrunar þjóðarinnar,“ segir Áslaug.

Að sögn Áslaugar Örnu er samkomulaginu ætlað að mæta vaxandi eftirspurn eftir fólki í greinar innan sviðanna tveggja til þess að vaktaráform atvinnulífsins geti gengið eftir.

„Það er auðvitað kallað eftir því frá atvinnulífinu að það vanti fólk í tæknigreinar, raunvísindi og verkfræði meðal annars, eða svokallaðar STEM greinar til þess að mæta miklum skorti á sérfræðingum, til dæmis í hugbúnaðarverkfræði svo að vaxtaáform hugverkaiðnaðarins gangi upp.“

Samkeppnishæfni Íslands lækkað

Áslaug segir skortinn á sérfræðingum innan þessara sviða hafa lækkað samkeppnishæfni landsins verulega og sitji Ísland nú í 87. sæti á meðal þjóða sem útskrifi nemendur í þessum greinum. 

„Ísland stendur auðvitað frammi fyrir ýmsum áskorunum sem mikilvægt er að háskólarnir taki þátt í að mæta og ég tel gríðarlega mikilvægt að mæta þessari þörf,“ segir Áslaug. 

„Það þarf að draga úr brottfalli í þessum deildum og halda betur um nemendur sem koma inn. En á sama tíma erum við líka að reyna að byggja sterkari brú á milli verkfræði- og náttúruvísindasviðs og menntavísindasviðs til þess að fjölga kennurum í þessum greinum í grunnskólum, en við sjáum auðvitað í PISA að stöðu nemenda í stærðfræði og náttúruvísindum er verulega ábótavant.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka