Unnið er að lokafrágangi Norðurhúss nýja Landsbankahússins við Reykjastræti í miðborg Reykjavíkur. Stefnt er að því að tvö ráðuneyti flytji starfsemi sína í húsið á fyrri hluta næsta árs, samkvæmt upplýsingum sem blaðið aflaði sér hjá fjármálaráðuneytinu.
Bygging nýrra höfuðstöðva Landbankans við Austurhöfn, sunnan tónlistarhússins Hörpu, hófst í ágúst 2019. Bankinn flutti starfsemi sína í húsið síðasta sumar. Nýja Landsbankahúsið er 16.500 fermetrar og þar af nýtir bankinn rúmlega 10.000 fermetra.
Í september 2022 var undirritaður samningur um kaup ríkisins á Norðurhúsi af Landsbankanum. Um er að ræða rétt tæplega 6.000 fermetra. Húsnæðið verður keypt fyrir andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs og var kaupverðið um sex milljarðar króna miðað við fullfrágengið húsnæði.
Norðurhús samanstendur af tveimur byggingarhlutum, annars vegar fjögurra hæða byggingu og hins vegar byggingu á einni hæð með þakgarði. Lóð Norðurhúss liggur að aðkomusvæði Hörpu.
Landsbankinn byggir húsið og mun afhenda ríkinu það tilbúið á fyrri hluta árs 2024. Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) mun taka við umsjón þess. Ákveðið hefur verið að tvö ráðuneyti flytji starfsemi sína í húsnæðið, utanríkisráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 7. desember.