Niðurrif Íslandsbankahússins er að hefjast

Íslandsbankahúsið hefur látið verulega á sjá síðustu árin.
Íslandsbankahúsið hefur látið verulega á sjá síðustu árin. mbl.is/Hákon

Niðurrif Íslandsbankahússins á Kirkjusandi 2 er að hefjast.

Félagið A.B.L. tak ehf. varð hlutskarpast í opnu útboði sem fór fram frá október inn í nóvember. Þetta fyrirtæki hefur komið að mörgum sams konar verkefnum á undanförnum árum. Starfsmenn þess vinna að því að hreinsa innan úr húsinu áður en niðurrif þess hefst, samkvæmt upplýsingum Jónasar Þórs Jónassonar hjá Íslandssjóðum, eiganda hússins. Vonast er til að verkinu verði lokið næsta sumar.

Íslandsbankabyggingin var upphaflega frystihús sem reist var á árunum 1955-1962 af hlutafélögunum Júpíter og Mars. Frystihúsið var síðar innréttað sem skrifstofuhús fyrir aðalstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Síðast voru þarna aðalstöðvar Íslandsbanka til ársins 2017. Húsið var þá dæmt ónýtt vegna myglu og Íslandsbanki flutti í Kópavog.

Húsið Kirkjusandur 2 er alls 6.916 fermetrar að stærð. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur veitti í september sl. leyfi fyrir niðurrifi hússins en þau áform höfðu dregist af ýmsum ástæðum.

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í stað hússins sem rifið verður. Áform eru um byggingu fjölbýlishúsa á lóðinni. Heimilt verður að byggja 27.100 fermetra ofan jarðar og 23.900 fermetra bílastæðahús neðan jarðar. Leyfilegt heildarbyggingarmagn verður því 51.000 fermetrar. Heimilaður heildarfjöldi íbúða verður 225. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka