Engar umræður hafa verið um að það á alþjóðavettvangi að beita Ísraelum þvingunaraðgerðum vegna átakana fyrir botni Miðjarðarhafs.
Þetta sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í svari við fyrirspurn Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Bjarni sagði það almennt hægt að segja um þvingunaraðgerðir að þær hefðu langmest áhrif þegar samtakamáttur ríkja væri nýttur.
„Nú eru ekki umræður um það á alþjóðavettvangi að beita slíkum úrræðum en við höfum ávallt fylgt bandalagsríkjum þegar slíkum úrræðum er beitt og við myndum gera það í þessu. En ég held að einhliða aðgerðir Íslendinga myndu nákvæmlega engum árangri skila heldur jafnvel þvert á móti myndu eyðileggja diplómatíska möguleika okkar til þess að koma okkar skilaboðum á framfæri,” sagði Bjarni.
„Þegar spurt er um næstu skref þá segi ég einfaldlega, við munum áfram tala fyrir því að dregið verði úr spennu á svæðinu,” sagði hann einnig og bætti við að áfram verði talað fyrir því mannúðaraðstoð verði komið til þeirra sem eru í neyð.
„Við höfum stóraukið framlög okkar til palestínsku flóttamannaaðstoðarinnar og við munum sækja fundi og láta okkar rödd heyrast.”