Líklegra en ekki að það komi til verkfalla

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segist „temmilega“ bjartsýnn á að það náist einhver niðurstaða á fundi með Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu í dag.

Flugumferðarstjórar hafa boðað verkföll á morgun og á fimmtudag, sex klukktíma í senn frá klukkan fjögur til klukkan tíu að morgni, í aðflugssvæðinu í kringum Keflavík og Reykjavík. Verði af fyrirhugaðri vinnustöðvun stöðvast allt flug á áðurnefndum tíma að undanskildu sjúkraflugi og öllu flugi á vegum Landhelgisgæslunnar.

Boðað hefur verið til fundar í Karphúsinu klukkan 14 í dag þar Félag íslenskra flugumferðarstjóra og Samtök atvinnulífsins reyna til þrautar að ná samningi áður en verkall skellur á.

„Það er erfitt að segja til um það hvort það beri mikið á milli. Við erum ekki að ræða bara um prósentuhækkanir á laun heldur eru fleiri mál á borðinu sem við erum að reyna að ná utan um. Við erum ekki alveg að ná saman og eins og staðan er núna tel ég líklegra en ekki að til verkfalla komi. Við mætum fullir bjartsýni til fundarins í dag eins og við gerum alltaf en svo er eitt hvað er raunhæf bjartsýni,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

Frá fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu …
Frá fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu fyrir helgi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert