Mafían var stærsti kaupandinn

Erla Friðriksdóttir rekur Æðarsetur Íslands ásamt fjölskyldu sinni en það er staðsett í Stykkishólmi.

Hún segir frá í hlaðvarpsþætti Morgunblaðsins í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins hvað hún hafi orðið hissa þegar hún fór til Japan árið 1991 og fékk þær upplýsingar að mafían keypti æðardúnsængur þar í landi. 

„Ég fór í fyrsta skipti til Japan 1991. Þar kom ég inn í verslun sem var að selja æðardúnsængur, þá merkt Sambandinu. Þá var Sambandið stórt í æðardúnsútflutningi. Ég spurði í þessari búð hverjir kaupa svona dýrar sængur. Afgreiðslukonan sagði án þess að blikna „mafían“,“ segir Erla og upplýsir að stykkið af æðardúnssæng kosti 650.000 kr. á Íslandi og það séu aðallega ferðamenn sem kaupi þær. Í slíkri sæng eru 800 g af æðardún. 

Landnámsmenn nýttu æðardún

Erla segir að æðardúnn og vinnslan á honum hafi fylgt þjóðinni frá landnámi og að Norðmenn hafi kennt Íslendingum að hreinsa æðardúninn. Hún segir að algengt hafi verið þeir efnaminni hafi borgað leigu með æðardúni. 

„Æðardúnn sé fágæt vara og það skipti miklu máli fyrir Stykkishólm og svæðið þar í kring að vera með þessa atvinnustarfsemi á svæðinu,“ segir hún og greinir frá því að 4.000 kílóum af æðardún sé safnað á heimsvísu á hverju ári. Á Íslandi er um 3.000 kílóum safnað. 

„Ég og fjölskylda mín rekum fyrirtæki sem heitir Íslenskur æðardúnn. Við erum að kaupa dún af bændum, hér í Breiðafirði en líka af öllu landinu. Og erum með hreinsistöð í Stykkishólmi þar sem við hreinsum dún og búum til vörur úr dúninum eins sængur, sjöl og fleira,“ segir Erla. 

Spurð að því hvaða þýðingu æðardúnninn hafi fyrir hagkerfið við Breiðafjörð segir Erla að hann skipti raunverulegu máli. 

„Um allt eru 400 æðadúnsbændur eða fólk sem tínir æðadún. Í eyjunum við Breiðafjörð er týndur dúnn í öllum eyjunum. Það eru ekki margir sem eru eingöngu æðarbændur. Þetta er kallað hlunnindabúskapur. Þetta er svona aukaafurð sem bændur hafa,“ segir hún.

„Vinnan fer fram á sumrin. Allavega við tínsluna. Fyrir mér er þetta ekki bara fyrir hagkerfið heldur eru þetta menningarminjar sem við eigum. Æðardúnn hefur verið týndur frá landnámi. Ég er viss um að Norðmenn kenndu okkur. Norðmenn komu með þessa þekkingu til Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert