Almenningi skuli tryggður forgangur að raforku

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa skilað umsögn um frumvarp …
Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa skilað umsögn um frumvarp um breytingar á raforkulögum. mbl.is/Sigurður Bogi

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum (SSKS) leggja þunga áherslu á, í umsögn um frumvarp um breytingar á raforkulögum sem samtökin hafa sent til atvinnuveganefndar Alþingis, að almenningi á Íslandi, sveitarfélögum og smærri fyrirtækjum sé tryggður forgangur að raforku til notkunar. 

Í umsögn sinni bendir SSKS á að í dag fari um 83% raforku sem framleidd er á Íslandi til stóriðju, gagnavera og slíkrar starfsemi. Einungis 17% fari til annarra nota þar á meðal til almennings og sveitarfélaga.

Í tilkynningu frá SSKS segir að ljóst sé að sú staða sem komin er upp, að ekki er til næg raforka fyrir alla sem vilja kalli á aðgerðir, aðgerðir sem felast í því að farið verði strax í að afla meiri raforku hér á landi. 

Óeðlilegt að brenna jarðefnaeldsneyti þegar við getum virkjað

Mikilvægt sé í þessu öllu að átta sig á því hver staðan er í dag varðandi raforkusölu og hvað þurfi að gera til að bregðast við því. Það sé afar óeðlilegt að við séum að brenna jarðefnaeldsneyti á sama tíma og við getum virkjað til að þurfa þess ekki. 

Þá er bent á að Íslendingum sé að fjölga sem þjóð og að þegar fram líða stundir munum við þurfa meiri raforku. 

Í umsögninni segir að lokum að það sé full ljóst að Alþingi verður að koma hér að málum og tryggja að allur almenningur á Íslandi, sveitarfélög og smærri fyrirtæki fái þá raforku sem þarf til að heimilin í landinu verði ekki raforkulaus með þeim alvarlegu afleiðingum sem það myndi valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka