„Til lengri tíma litið eru jarðgöng undir Reynisfjall eini raunhæfi kosturinn, enda gerir aðalskipulag ráð fyrir slíku,“ segir Bjarni Jón Finnsson í Vík í Mýrdal. Hann er talsmaður þrýstihóps sem kallar sig Vini vegfarandans sem nú lætur til sín taka varðandi samgöngumál þar eystra.
Fyrir skemmstu var kynnt skýrsla til umhverfismats, sem unnin var fyrir Vegagerðina, um uppbyggingu á hringveginum um Mýrdal. Sú miðar að því að taka á þeim þröskuldi sem fjallvegurinn yfir Gatnabrún ofan við Víkurþorp er.
Varðandi vegabætur í Mýrdal er tvennt í boði. Annað er að leggja veg frá bænum Skeiðflöt til austurs um ósasvæði að Reynisfjalli þar sem gerð yrðu göng undir fjallið með munna nærri Víkurþorpi. Þar, austan fjalls, yrði vegur um fjöruna sunnan við kauptúnið sem tengjast myndi núverandi þjóðvegi austan við byggðina. Hinn möguleikinn er að vegurinn verði áfram yfir fjall á svipuðum stað en að breytingar til bóta verði gerðar svo sem í Grafargili inn af Vík. Og slíkt er leiðin sem Vegagerðin vill að farin verði. Að endurbæta leið yfir fjall og færa vegstæðið rétt norður fyrir Víkina er í matsskýrslu sagt uppfylla markmið um „bætt umferðaröryggi, greiðfærni og færslu hringvegar út fyrir þéttbýli“.
Um jarðgöng segir að slík framkvæmd sé dýr og stytting leiða yrði óveruleg. Þá muni göng seint standa undir sér þó að veggjöld yrðu innheimt. Einnig er nefnt að ströndin við Vík, þar sem vegur yrði lagður, sé útsett fyrir ágangi sjávar og framkvæmdir þar feli í sér áhættu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.