Stefán E. Stefánsson
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra segir frumvarp um orkuskömmtun samið inni í ráðuneytinu en ekki hjá Landsvirkjun. Starfsmenn fyrirtækisins hafa haldið öðru fram.
Þetta kemur fram í beinskeyttu samtali ráðherra við þáttastjórnanda á vettvangi Spursmála á mbl.is.
Þar er ráðherra spurður út í þetta mál og m.a. vísað til þess að starfsmenn Landsvirkjunar hafi látið hafa eftir sér að frumvarpið hafi átt uppruna sinn hjá fyrirtækinu en ekki ráðuneytinu.
Viðmælendur sem Morgunblaðið hefur rætt við segja það skjóta skökku við ef starfsmenn Landsvirkjunar hafi haft hönd í bagga við samningu frumvarpsins enda muni það, verði það að lögum, styrkja mjög samkeppnisstöðu Landsvirkjunar sem langstærsta orkuframleiðslufyrirtækis landsins. Samkeppniseftirlitið hefur látið varnaðarorð falla varðandi þessi atriði í umsögn með frumvarpinu.
Samkvæmt frumvarpinu var ætlunin að veita Orkumálastjóra víðtækar heimildir til þess að hlutast til um það með hvaða hætti raforku er ráðstafað á markaði. Í þinglegri meðferð hefur þetta atriði þó tekið þannig breytingum að nú er gert ráð fyrir að skömmtunarhlutverkið verði beint á herðum ráðherra sjálfs.
Viðtalið við Guðlaug Þór má sjá og heyra í heild sinni hér:
Viðtalið er einnig aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum og á Youtube.