Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra valda miklu fjárhagstjóni og vonar að lögbann verði sett á aðgerðirnar. Flugfélagið hefur gert breytingar á tengileiðakerfinu tímabundið og gerir Birgir ekki ráð fyrir því að flugferðir falli niður.
Í næstu viku, á mánudag og miðvikudag frá klukkan 4 til 10, eru boðaðar vinnustöðvanir hjá flugumferðarstjórum og hefur Play þurft að grípa til þess ráðs að breyta tengileiðakerfi sínu tímabundið enda flest flug Play á þeim tíma sem aðgerðirnar eru boðaðar.
Er gert ráð fyrir því að flugferðir falli niður?
„Eins og þetta lítur út núna þá erum við ekki að gera ráð fyrir því. Það getur auðvitað allt gerst, þetta er náttúrulega vikan fyrir jól,“ segir Birgir og bætir við að mikil vinna hafi farið í það að breyta tengileiðakerfinu til að tryggja að allir farþegar komist á áfangastað með sem minnstu röskunum.
„Eins og planið er núna þá lítur þetta bara mjög vel út.“
Það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvert fjárhagslegt tjón flugfélagsins er vegna aðgerðanna en hann segir að þá tvo daga sem aðgerðirnar voru í síðustu viku hafi beint tap verið í kringum 100 milljónir króna.
„Svo er líka verið að tala um alls konar tapaðar tekjur, fólk er að breyta ferðum og hitt og þetta sem kemur í þetta. En í næstu viku erum við í raun og veru að ná með þessum breytingum að lágmarka fjárhagslega tjónið okkar því við erum ekki í niðurfellingum og svoleiðis aðgerðum,“ segir Birgir.
„Síðan er maður að vona – maður er svolítið eins og rödd í eyðimörkinni með það – að það verði sett lög á þetta því ég er auðvitað skíthræddur um að þetta fari yfir jólin og á milli jóla og nýárs og haldi áfram, við getum ekkert endilega verið að gera þessar æfingar þá líka,“ segir Birgir og bætir við að þessar tímabundnu breytingar séu ekki langtímalausn og því verði fjárhagslega höggið mun þyngra eftir því sem líður á mánuðinn, ef aðgerðirnar halda áfram.
„Ég vona það að yfirvöld og ríkisstjórnin setji lög á þetta því þetta er auðvitað milljarða tjón sem er að verða,“ segir Birgir.