Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur og formaður Solaris, bindur vonir við að stjórn Ríkisúvarpsins taki til greina þær tæplega 10 þúsund undirskriftir sem félagið BDS - Ísland, afhenti útvarpsstjóra, Stefáni Eiríkssyni fyrir utan útvarpshúsið í dag.
Farið er fram á að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því að Ísrael verði vísað úr Eurovision-söngvakeppninni.
„Krafan er að Ísland dragi sig úr Eurovision ef Ísrael verður ekki vísað úr keppni. Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því. Ísland eins og öll önnur þátttökuríki í Eurovision hefur vald til þess að fara fram á að þátttaka Ísraels verði endurskoðuð í ljósi þess að ríkið er að fremja þjóðarmorð og á ekki að stíga á skemmtisvið í Evrópu á sama tíma,“ segir Sema í viðtali við mbl.is fyrir utan útvarpshúsið.
Stefán sagði fyrr í desember að Rúv myndi ekki fara fram á að Ísrael yrði vísað úr keppni. Sagði hann þátttöku Íslands í Eurovision ekkert hafa með pólitíska afstöðu að gera.
Þátttaka Ísraels var óbeint til umræðu á fundi stjórnar Rúv, en Mörður Áslaugarson, einn stjórnarmanna lagði þar fram ályktun um að Rúv myndi ekki taka þátt ef Ísrael tæki þátt í keppninni. Var því hafnað á fundinum að taka tillöguna til ályktunar.
Spurð hvort hún telji Ísland geta haft áhrif innan Eurovision sagði Sema Erla að hún teldi svo vera. Öll ríki, stór eða smá, gætu haft áhrif.
Hátt í fimmtíu manns mættu fylktu liði fyrir utan Útvarpshúsið og mótmæltu afstöðu Rúv í málinu. Kveðst Sema Erla ánægð með mætinguna, en mótmælin voru skipulögð með skömmum fyrirvara.
Spurð hvort til einhverra frekari ráðstafana verði gripið ef Rúv ákveður að draga sig ekki úr keppni vegna þátttöku Ísraels sagðist Sema Erla binda vonir við að fjöldi undirskriftanna væri nóg. Ríkisútvarpið væri jú í almannaeigu og ætti að hlusta á raddir almennings í landinu. „Mér finnst mjög óeðlilegt ef það verður ekki gert,“ segir Sema Erla.
Eurovision væri þó ekki fyrr en í maí á næsta ári og því nægur tími til þess að grípa til frekari aðgerða. Söngvakeppnin, forkeppni Rúv fyrir Eurovision, hefst þó í febrúar.
Sema Erla segir áróðursmaskínur Ísraelsríkis þegar vera komnar í gang vegna Eurovision í gegnum forkeppnina þar í landi.
„Ísraelsríki er með mjög öfluga áróðursmaskínu starfandi um allan heim sem notar íþróttaviðburði eða viðburði eins og Eurovision-söngvakeppnina, til þess hreinlega að sýna aðra mynd af sér en stríðsríki sem fremur þjóðernishreinsanir,“ segir Sema Erla.