Jarðvísindamenn fylgjast nú með því hvort nýjar sprungur opnist við kvikuganginn sem myndaðist þegar eldgos hófst í gærkvöldi. Þetta segir jarðeðlisfræðingurinn Benedikt Gunnar Ófeigsson, sem er einnig fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
„Við sáum þetta gerast bæði í fyrsta og öðru eldgosinu í Fagradalsfjalli. Þá opnuðust nýjar sprungur tiltölulega nálægt gömlu sprungunum. Það er ekkert víst að það gerist þarna en það er eitthvað sem maður þarf að hafa í huga að getur gerst,“ segir Bendikt við mbl.is.
Dregið hefur úr krafti eldgossins sem hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þriðjungur upphaflegu sprungunnar er virkur.
Benedikt segir að fjögurra kílómetra sprungan sem myndaðist í nótt hafi náð yfir stóran hluta kvikugangsins. Gangurinn teygi sinn enn sunnar, jafnvel austan fyrir Þorbjörn. „Þar er fersk kvika sem gæti komið upp,“ segir hann.
Benedikt nefnir að gosið hafi hafist í miðri skjálftahrinu, sem sé ólíkt því sem gerðist í Fagradalsfjalli á sínum tíma.
„Núna kom þetta upp þegar hrinan stóð sem hæst og svo fór að draga úr henni eftir að gosið fór upp. En svo hefur skjálftavirkni dottið niður,“ segir hann.
Kvika hefur runnið í átt að Grindavíkurvegi en hægst hefur á hraunflæði á síðustu tímum. Hraunflæðið er gróflega áætlað um fjórðungur af því sem það var í byrjun.
Benedikt kveðst ekki geta sagt til um hvort það sé líklegt að kvikan renni yfir Grindavíkurveg. „Ef þetta heldur áfram þá getur það gerst en hann [Grindavíkurvegur] er ekkert í stórhættu enn þá,“ segir Benedikt. „Lykilatriðið er hversu lengi þetta helst gangandi.“
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði við mbl.is fyrr í dag að þó svo að hraunið hefði náð um 40% leiðarinnar að Grindavíkurvegi væri „mjög lítil hreyfing á þeim enda“.