„Vorum mjög nærri því að missa mann“

Gangan að eldgosinu er aðeins fyrir færustu göngumenn.
Gangan að eldgosinu er aðeins fyrir færustu göngumenn. mbl.is/Arnþór

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir manninn sem bjargað var á Reykjanesskaga í gær hafa verið í lífshættu. Heppni hafi verið að athugull flugmaður hafi rekið augun í SOS-merki sem hann sendi með ljósi. 

„Við vorum mjög nærri því að missa mann í gær. Það var bara athugull flugmaður sem sér þarna SOS-merki. Hann hefði að öllum líkindum orðið úti ef hann hefði ekki verið sóttur. Ég geri ráð fyrir að þessi maður hafi verið í þeim leiðangri að heimsækja gosstöðvarnar. Hann var í bráðri lífshættu,“ segir Úlfar. 

Landhelgisgæslan fann mannin heilan á húfi, þó hann hafi verið orðinn kaldur og hrakinn.

Nær ómögulegt að ganga að gosinu

Lögregla hefur biðlað til fólks að ganga ekki að gosstöðvunum. Segir Úlfar göngu að gosinu vera nær ómögulega. 

„Eins og með Reykjanesbrautina, það er í rauninni ógjörningur að labba að gosinu þaðan nema fyrir virkilega vel þjálfaða göngumenn og þeir eru þá velflestir íslenskir. Ég hef ekki áhyggjur af þeim hópi manna. En erlendu ferðamennirnir á sandölum, það eru frekar þeir sem ég hef áhyggjur af,“ segir Úlfar. 

Hann segist þó ekki hafa stórar áhyggjur af erlendum ferðamönnum einmitt núna, en að vandamál gætu skapast síðar meir. 

Frá Reykjanessbrautinni eru um 8-9 km, sem gerir göngu fram …
Frá Reykjanessbrautinni eru um 8-9 km, sem gerir göngu fram og til baka tæplega 20 km langa. mbl.is/Arnþór

Í basli með mönnun

Lögreglan kom að leitinni að manninum og segir Úlfar að erfiðlega gangi að manna alla pósta um þessar mundir. 

„Við erum í gríðarlegu basli með að fá menn til starfa. Við erum búin að vera svo lengi í þessum aðgerðum. Við vorum í þessu í ágúst, svo aftur í nóvember. Þetta er fjórða gosið. Það gengur orðið erfiðlega fyrir okkur að manna viðbragðið,“ segir Úlfar. 

Þannig séu til dæmis starfsmenn frá Öryggismiðstöðinni á lokunarpóstum á Reykjanesskaganumþ 

„Við erum að reyna að stilla þessu upp eins og vel og nokkur kostur er, útvista verkefnum en þó undir okkar stjórn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert