Agnar Már Másson
Eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina er lokið.
Eins og fram hefur komið er engin gosvirkni sjáanleg á sprungunum norðan Grindavíkur og virðist hafa slokknað í gígunum. Þó er glóð enn sjáanleg í hraunbreiðunni.
„Það er náttúrulega engin virkni í gígum. Gosinu er þannig séð lokið,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur, við mbl.is. Hún bætir við að það sé erfitt að segja til um hvert framhaldið verður.
„Það eru engin gögn sem sýna fram á að það sé aukning í skjálftavirkni eða órói að neinu öðru tagi sem gefur til kynna eitthvað meira en hvernig staðan er núna,“ segir Sigríður enn fremur.
Gosið hófst seint mánudagskvöld, 18. desember. Spurð að því hvort það komi sér á óvart að gosið hafi varið í svo stuttan tíma svarar Sigríður:
„Eins og hefur áður komið fram virðast þessir atburðir svipa til atburðanna í Kröflu. Þar eru dæmi um að gos hefur staðið yfir í einn til tvo daga.“
Gosið er mjög öflugt í samanburði við önnur gos. Veðurstofan áætlaði að hraunflæði hafi verið um 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu í upphafi goss.
Fréttin hefur verið uppfærð.