Kvikusöfnun virðist hafin undir Svartsengi

Vinna við gerð varnargarðanna við Svartsengi eftir að gosið hófst.
Vinna við gerð varnargarðanna við Svartsengi eftir að gosið hófst. mbl.is/Arnþór

Kvikusöfnun virðist hafin að nýju undir Svartsengi.

Þetta segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það virðist vera kvikusöfnun aftur í gangi í Svartsengi og ég er ansi hrædd um að við séum að horfa upp á svona ítrekað ferli þar sem safnast fyrir kvika í Svartsengi og svo verða kvikuhlaup,“ segir hún.

„Tíminn verður svo bara að leiða í ljós hvernig því vindur fram. Það er bara spurning hversu lengi kvika safnast fyrir og hvort kvikuþrýstingurinn verði nægur til þess að þetta verði annað kvikuhlaup.“

Hún bendir á að ekki hafi gosið á þessari sprungu í yfir tvö þúsund ár. Vísindamenn séu að kynnast þessu kerfi og læra inn á það hvernig það virkar.

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kröftugt gos og skyndileg lok komu á óvart

Spurning dagsins er sú hvort gosinu við Sundhnúkagíga sé lokið eða ekki. Henni svarar Kristín:

„Það er engin gosvirkni í gangi núna. Það sést hraun ennþá í gígunum en það gýs ekki upp úr þeim lengur.“

Spurð hvort atburðarásin í þessu gosi hafi komi henni á óvart svarar Kristín játandi. 

„Bæði hvað gosið byrjaði kröftuglega með skömmum fyrirvara og hversu hratt það hefur fjarað út. Við sáum í gær að það var búið að draga verulega úr gosinu en ég hélt að þetta myndi standa yfir eitthvað lengur,“ segir Kristín.

Segir hún það góðar fréttir að engin gosvirkni sé í gangi við Sundhnúkagíga.

Hættumatið gildir áfram

Hvað þarf að líða langur tími þar til lýst verður yfir goslokum?

„Ég treysti mér ekki alveg til að svara því. Við sáum þetta bara í morgun og við þurfum að gefa okkur meiri tíma til að meta það,“ segir Kristín.

Veðurstofan gaf út nýtt hættumatskort í gærkvöldi og segir Kristín að það gildi áfram og að stöðug vöktun verði í gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka