Skiptum á þrotabúi Steingríms Wernerssonar, eins af fyrrverandi eigendum eignarhaldsfélagsins Milestone, er lokið. Um 1% fengust greiddar upp í kröfur í búið.
Samtals var kröfum upp á 14,5 milljarða lýst í búið, en 143 milljónir fengust greiddar upp í kröfurnar. Þá voru samþykktar kröfur, veðkröfur, búskröfur og sértökukrafa upp á samtals 13,26 milljarða og fékkst því rétt um 1% greitt upp í þær kröfur.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu vegna skiptalokanna.
Steingrímur var úrskurðaður gjaldþrota árið 2017, en þá hafði hann auk bróður síns og fyrrverandi framkvæmdastjóra Milestone verið dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða auk vaxta vegna millifærslu sem gerð var á reikning systur þeirra, Ingunnar Wernersdóttur, í aðdraganda falls félagsins. Hæstiréttur staðfesti dóminn um ári síðar.
Sértökukrafa í búið upp á 3 milljónir fékkst greidd að fullu. Einnig fengust búskröfur upp á 25,2 milljónir greiddar að fullu. Þá fengust 29,2 milljónir greiddar upp í veðkröfu, eða sem nemur 52,48%.
Samþykktar almennar kröfur í búið námu samtals 13.174.557.204 krónum, eða 13,17 milljörðum. Fengust 85,5 milljónir greiddar upp í þær kröfur, eða 0,65%. Ekkert greiddist upp í eftirstæðar kröfur.
Árið 2021 var greint frá því að Galtalækjaskógur hefði verið auglýstur til sölu á 200 milljónir króna, en landið komst í eigu þrotabús Steingríms. Árið 2007 höfðu bindindissamtökin I.O.G.T. selt félagi í eigu Steingríms og bróður hans jörðina.
Þetta er ekki eina stóra gjaldþrotið í kringum fall Milestone, en árið 2018 var greint frá því að aðeins 86 milljónir hafi fengist greiddar upp í tæplega 12 milljarða kröfu í þrotabú Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Milestone. Þá eru ýmiss málaferli í gangi vegna þrotabús bróður Steingríms, Karls Wernerssonar.