Grindvíkingar fá að halda jólin heima hjá sér

Þorbjörg Halldórsdóttir og barnabarn hennar, Tinna Dögg Siggeirsdóttir, vitjuðu leiðis …
Þorbjörg Halldórsdóttir og barnabarn hennar, Tinna Dögg Siggeirsdóttir, vitjuðu leiðis ástvinar í Grindavík í gær. Nú fá þær að dvelja í bænum eins og aðrir Grindvíkingar. mbl.is/Eyþór Árnason

Íbúum Grindavíkur verður heimilt að dvelja þar allan sólarhringinn frá og með morgundeginum.

Þetta tilkynnir lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Tekið er fram að sérfræðingar Veðurstofunnar hafi komið saman á fundi í morgun kl. 9.30 þar sem farið var yfir nýjustu gögn. Í kjölfarið áttu fulltrúar Veðurstofu fund kl. 13 með lögreglustjóranum og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Þá er ítrekað að samkvæmt nýju hættumatskorti Veðurstofu sé enn metin töluverð hætta á náttúruhamförum í Grindavík.

Fátt verður um bjargir og engin björgunarsveit

Sérstaklega er tekið fram að gos geti hafist í Grindavík eða í næsta nágrenni með skömmum fyrirvara.

„Hefjist gos í Grindavík verður fátt um bjargir. Huga þarf fyrst að öryggi viðbragsaðila áður en kemur að björgun annarra,“ segir í tilkynningunni.

Þá verði viðbragð björgunarsveita skert. Engin björgunarsveit verði í Grindavík. Liðsmenn björgunarsveitarinnar í Grindavík verði dreifðir um landið og ekki til staðar í bænum.

Þá er fólk beðið um að kalla eftir aðstoð með því að hringja í 112.

Mögulegar flóttaleiðir

Hefjist gos í eða við Grindavík verði send út sms-skilaboð í síma inn á svæðinu með þessum texta:

„RÝMING RÝMING!  Yfirgefið svæðið hratt og örugglega, hringið í 112 ef ykkur vantar aðstoð.  RÝMING RÝMING …….  EVACUATE! Leave the area quickly and safely, call 112 if you need help.“

Lögregla muni sinna eftirliti í og við Grindavík eins og verið hafi allan sólarhringinn. 

Mögulegar flóttaleiðiir verði þá um Nesveg, Suðurstrandarveg og Grindavíkurveg.

Áfram lokunarpóstar

Bent er á að lokunarpóstar verði á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi fram á annan dag jóla í það minnsta.

Íbúar Grindavíkur, eigendur fyrirtækja og starfsmenn þeirra hafi heimild til að fara inn fyrir lokunarpósta allan sólarhringinn og íbúar megi gista í bænum.

Óviðkomandi einstaklingum verði ekki hleypt inn fyrir lokunarpósta að svo stöddu. Helstu fjölmiðlar hafi heimild til að fara inn fyrir lokunarpósta.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka