Gyrðir er týndur

Gyrðir Elíasson rithöfundur.
Gyrðir Elíasson rithöfundur. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Ljóðatvenna Gyrðis Elíassonar Dulstirni og Meðan glerið sefur seldist upp fyrir nokkru. Aðdáendur Gyrðis sátu því margir eftir með sárt ennið og útgefandinn Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ákvað að drífa í endurprentun.

„Bækurnar voru prentaðar erlendis og við sáum nokkuð snemma að það myndi þurfa að bæta við upplagið. Erlenda prentsmiðjan brást vel og hratt við og var á undan áætlun og tilkynnti að ég fengi upplagið sent í flugi 15. desember,“ segir Aðalsteinn.

Dagarnir liðu en ekkert bólaði á bókunum. Í morgun fékk Aðalsteinn síðan að vita að sendingin væri týnd. Enginn virðist vita hvar hún er.

„Leitin að týndu bókunum stendur yfir. Ef sendingin finnst ekki þá hef ég möguleika á að prenta annað upplag. Á endanum mun þetta allt skýrast,“ segir Aðalsteinn og bætir við: „Áhuginn á bókum Gyrðis er að aukast í útlöndum og það mun koma í ljós hvaða Evrópuland fékk bækurnar.“

Mikið er spurt um bækurnar í bókaverslunum, en ljóðaunnendur verða að sýna þolinmæði enn um sinn. Gyrðir mun vonandi rata til þeirra þótt seint verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka