Izhar Cohen, sem vann Eurovision árið 1978 fyrstur Ísraelsmanna, sakar íslensku þjóðina um gyðingahatur í sjónvarpsþætti á Stöð 13 í heimalandi sínu.
„Kæru gyðingahatarar (e. anti-semitic) ísvinir. Við vitum að þið hatið, afsakið, ykkur líkar illa við okkur,“ segir Cohen í upphafi ávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar og talar þar ensku.
Segir hann Íslendinga berjast fyrir mannréttindum allra nema Ísraelsmanna og gyðinga, og séu þess vegna gyðingahatarar.
Ávarp Cohens kemur í kjölfar mótmæla á Íslandi við þátttöku Ísraelsríkis í Eurovision-söngvakeppninni sem fram fer í Svíþjóð á næsta ári.
Mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar, eða 76%, eru sammála því að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku í Eurovision. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Prósent framkvæmdi 14. til 21. desember.
Cohen stingur upp á því að í stað þess að taka pólitískar skoðanir með sér í Eurovision, ættu Íslendingar að semja gott lag til þess að vinna keppnina.
Endar hann ávarp sitt á því að segja:
„Þið hafið mikinn ís á Íslandi, er það ekki? Fyllið á ykkur kjaftinn með klökum og haldið fokking kjafti! Ísrael 12 stig, Ísland núll.“