Fjármálaráðherra segir það vonbrigði að dómarar vilji áskilja sér rétt ofgreiðslum vegna „formgalla“, sérstaklega á viðkvæmum tímum í kjaramálum.
Greint var frá því í gær að Hæstiréttur hefði staðfest dóm héraðsdóms um að íslenska ríkið mætti ekki lækka laun dómara og krefjast endurgreiðslu eftir að ríkið taldi þá hafa fengið ofgreidd laun.
„Það olli vonbrigðum að æðstu embættismenn vilji á grundvelli formgalla áskilja sér rétt til að halda slíkum ofgreiðslum. Ekki síst á það við á þeim viðkvæmu tímum sem nú eru uppi í kjaramálum,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
„Við virðum að sjálfsögðu niðurstöðu dómstóla. Það var algjör samstaða um það í ríkisstjórn að leiðrétta ofgreiðslur launa til æðstu embættismanna stjórnkerfisins,“ bætir Þórdís Kolbrún við.
Ráðherra segir að nú fari fram mat á áhrifum dómsins og að nýverið hafi verið skipaður starfshópur um mögulegar breytingar á gildandi fyrirkomulagi launaákvarðana æðstu embættismanna.
Verkefni starfshópsins sé að leggja mat á gildandi viðmið þeirra sem fá laun ákvörðuð samkvæmt lagaákvæðum m.t.t. mögulegra breytinga á því og hvort nýtt viðmið geti tekið gildi við endurákvörðun launa þessa hóps þann 1. júlí 2024.
Þá sé einnig mat lagt á gildandi fyrirkomulag á ákvörðun launa forstöðumanna með tilliti til mögulegra breytinga á því og þá hvernig því verði vel fyrir komið og það verði í traustu horfi til framtíðar.