Ríkið á ekki að ganga lengra en almennur markaður í að veita frídaga, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Greint var frá því á föstudag að afgreiðsla Hagstofu Íslands yrði lokuð á milli jóla og nýárs. Þá var einnig rifjað upp að stofnunin hefði sætt gagnrýni fyrir síðustu jól eftir að hún tilkynnti að þar yrði lokað á milli jóla og nýárs vegna jólafrís starfsmanna.
„Almennt þykir mér að ríkið eigi ekki að ganga lengra en almennur markaður í að veita auka frídaga enda ekki stefna ríkisins að vera leiðandi í þróun launa og annarra kjara á vinnumarkaði,“ segir Þórdís Kolbrún í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Hún svarar því á sama hátt og forveri sinn, Bjarni Benediktsson, sem sagði einmitt í samtali við mbl.is í desember í fyrra að ríkið ætti ekki að ganga lengra en almennur markaður í að veita frídaga aukalega. Þegar slík tilvik kæmu upp vöknuðu spurningar um það hvort fjárheimildir væru of ríflegar.
Allur gangur er á því hvort starfsfólk ríkisstofnana fái jólafrí yfir hátíðarnar. Menntamálastofnun verður lokuð á milli jóla og nýárs en hægt verður að hafa samband við stofnunina símleiðis. Hljóðbókasafn Íslands verður lokað á milli jóla og nýárs sem og héraðsdómstólar landsins.
Skrifstofur Hæstaréttar og Landsréttar hafa verið opnar fyrir hádegi frá 18. desember og helst sá afgreiðslutími til 5. janúar. Dómstólasýslan er opin á milli jóla og nýárs auk flestra bygginga Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnsins og Neytendastofu svo fáein dæmi séu nefnd. Þá verður skrifstofa ríkissaksóknara lokuð á milli jóla og nýárs, líkt og í fyrra.
Uppfært klukkan 16.25
Að beiðni Hagstofunnar skal tekið fram að afgreiðsla Hagstofunnar verður lokuð en tekið verður á móti rafrænum erindum og leyst úr þeim eftir þörfum.
Svo til öll erindi til Hagstofunnar berist rafrænt og því hafi lokun afgreiðslunnar á milli jóla og nýárs lítil sem engin áhrif á þá þjónustu sem Hagstofan veitir.