Snjóflóð féll rétt eftir miðnætti innan við flugvöllinn á Ísafirði. Þetta staðfestir Minney Sigurðardóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Að hennar sögn var flóðið ekki mjög þykkt en fór yfir Skutulfjarðarveg og út á Djúpveg. „Það varð enginn fyrir flóðinu og engar skemmdir urðu, hvorki á húsnæði né innviðum flugvallarins.“
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er nú í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi.
Á Vestfjörðum eru allir helstu vegir lokaðir en Vegagerðin getur ekki sinnt snjómokstri vegna veðurs. Staðan verður endurmetin í birtingu.
Í Facebook-færslu lögreglunnar á Vestfjörðum segir að þeir vegfarendur sem nauðsynlega þurfa að komast á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar í dag mega gjarnan senda einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar.