Bjuggu til skautasvell með brunaslöngum

Skautasvellið er heimatilbúið og er um 540 fermetrar að stærð.
Skautasvellið er heimatilbúið og er um 540 fermetrar að stærð. mbl.is/Jón Sigurðarson

Skautasvell var opnað þann 21. desember á Vopnafirði og á Þorláksmessu var gestum boðið upp á heitt súkkulaði þar sem um 150 bollar ruku út.

Það er enginn skortur á einstaklingsframtakinu við þetta verkefni en það eru almennir bæjarbúar sem tóku sig saman og fengu leyfi til að breyta sparkvellinum við hlið grunnskólans í bænum í skautasvell. Vopnfirðingurinn Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir og maður hennar, ásamt vinnufélaga hans, ákváðu að búa til þetta skautasvelli.

„Á Þorláksmessu voru við með smá viðburð og buðum upp á kaffi, jólaglögg, smákökur og vorum búin að fá skauta frá skautahöllinni á Akureyri þannig við gátum leyft öllum að prófa,“ segir Aðalbjörg.

Svellið 540 fermetrar að stærð

Hún segir að það hafi verið mjög góð mæting og telur að það hafi að minnsta kosti 150 manns mætt miðað við það að 150 kakóbollar hafi klárast. Á Vopnafirði búa um 600 manns. Hún segir að bæði ungir sem aldnir hafi skemmt sér konunglega.

Svellið sjálft er á sparkvelli sem er um 540 fermetrar að stærð. Til þess að búa til svellið var dælt vatni yfir sparkvöllinn með nokkrum brunaslöngum sem voru tengdar við brunahana.

„Svo var bara sprautað hérna á völlinn nótt og dag þangað til það var komið fínt svell,“ segir Aðalbjörg.

Aðalbjörg segir að síðan skautasvellinu var hleypt af stokkunum hafi fleiri bæst við í hópinn og þá hafi til að mynda önnur kona í sveitarfélaginu hjálpað henni til við Þorláksmessuviðburðinn.

„Hún er sjálf á skautum, á dóttur sem er á skautum – dætur okkar eru á skautum. Svo bætist vonandi endalaust í hópinn,“ segir Aðalbjörg og hlær.

Almennir bæjarbúar tóku sig saman og breyttu sparkvellinum í skautasvell.
Almennir bæjarbúar tóku sig saman og breyttu sparkvellinum í skautasvell. mbl.is/Jón Sigurðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert