Mun taka tvær vikur að safna sama magni kviku

Frá Sundhnúkagígaröðinni þar sem gaus 18. desember.
Frá Sundhnúkagígaröðinni þar sem gaus 18. desember. mbl.is/Eyþór

Hraði landrissins við Svartsengi er mjög svipaður og hann var fyrir eldgosið sem varð 18. desember. Þýðir það að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi og líkur eru á að það leiði til annars kvikuhlaups og einnig eldgoss. 

Svo segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. 

Líkanreikningar benda til þess að um 11 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og inn í kvikuganginn 18. desember, sem endaði með eldgosi. 

„Miðað við núverandi hraða á landrisinu mun taka um tvær vikur fyrir sama rúmmál að safnast í kvikuhólfið,“ segir í tilkynningunni enn fremur. 

Óvissa hvenær þrýstingur verði nógu hár

Mikil óvissa er um hvenær þrýstingur í kvikuhólfinu verður nógu hár til að koma af stað nýju kvikuinnskoti. 

Eins og Morgunblaðið greindi frá í dag fylgir þróun síðustu daga við Grindavík sömu þróun og sást fyrir eldgosið 18. desember. 

„Rétt er að benda á að kvikugangurinn sem myndaðist 10. nóvember náði um 15 km leið, frá Kálfafellsheiði í norðri og út í sjó suðvestan við Grindavík. Þetta þýðir að kvika hafi náð undir allt svæðið. Líklegasta upptakasvæði fyrir næsta eldgos er þó á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Áfram eru líkur á eldgosi sem aukast með hverjum deginum sem líður,“ segir einnig í tilkynningu Veðurstofu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert