Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það liggja fyrir að gera þurfi ráð fyrir því að varnargarðar verði reistir í kringum Grindavík.
Rúv greinir frá.
Að sögn Katrínar rúmast ákvörðun um byggingu varnargarða utan um Grindavík innan þeirra laga sem Alþingi hefur þegar samþykkt.
Hún segir það ljóst að gera þurfi ráðstafanir til þess að verja byggð í Grindavík með varnargörðum á borð við þá sem reistir hafa verið í kringum Svartsengi á undanförnum vikum.
Þá bendir Katrín á að frumvarpið sem hún lagði fram til byggingar varnargarðanna í Svartsengi á sínum tíma feli einnig í sér lagaheimild til byggingar varnargarða fyrir Grindavík.
Katrín segir að samkvæmt lögum sé það í höndum almannavarna ríkislögreglustjóra að setja fram tillögu um byggingu varnargarða í Grindavík.
Því kveðst hún nú bíða þess að dómsmálaráðherra berist tillaga um byggingu varnargarða við Grindavík frá almannavörnum, en einungis þá geti ríkisstjórnin tekið endanlega ákvörðun.
Loks segir Katrín ríkisstjórnina hafa unnið að því að kortleggja alla innviði í og við Grindavík í kjölfar jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en hún segir það liggja fyrir að lagt sé upp úr því að ákvarðanir séu teknar með eins faglegum og vönduðum hætti og kostur er á.