„Allt saman klárt“ fyrir fjölskyldusameiningar

Guðmundur segir allt klárt fyrir fjölskyldusameiningar sem strandi þó á …
Guðmundur segir allt klárt fyrir fjölskyldusameiningar sem strandi þó á því að fólk komist út af Gasa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagsmálaráðuneytið er með samning við alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, IOM, um að flytja fólk frá Kaíró í Egyptalandi og hingað til lands. Fjölskyldusameiningar strandi á því að fólk komist út af svæðinu. 

Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi. Guðmundur hefur fullan skilning á því að fólk sé áhyggjufullt og hafi áhyggjur af fjölskyldum sínum. Hann segir það þó erfitt fyrir fólk að komast út af Gasa. 

Strandar á því að fólk komist út af svæðinu 

Að sögn Guðmunds hefur útlendingastofnun veitt dvalarleyfi til um það bil hundrað manns. Félagsmálaráðuneytið er með samning við IOM um að flytja fólk frá Kaíró í Egyptalandi, segir hann og því ættu fjölskyldusameiningarnar að geta átt sér stað. 

„Það er allt saman klárt, þannig að það í rauninni strandar á því að fólk komist út af svæðinu.“

Ekkert sem stjórnvöld geta gert eins og sakir standa

Getið þið eitthvað beitt ykkur í því?

„Við erum auðvitað að fylgjast með því hvað önnur ríki eru að gera. Til dæmis Norðurlöndin þau hafa verið að aðstoða eigin ríkisborgara við að komast út af svæðinu og fólk sem hafði farið aftur inn á svæðið eftir að hafa dvalið í einhverjum Norðurlandanna. En hafa ekki verið að veita dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameininga eftir 7. október ólíkt því sem við höfum vissulega gert hér á Íslandi,“ segir hann og bætir við:

„Þannig að við erum að safna upplýsingum um hvernig önnur ríki eru að standa að þessum málum. Við áttum ágætan fund hér í morgun þar sem við vorum að fara yfir þetta og munum áfram fylgjast mjög náið með því hvernig þessi mál þróast hjá öðrum. Upp á það að geta séð hvort að það sé eitthvað í stöðunni hér varðandi hvort við getum beitt okkur eitthvað frekar.“

Spurður hvort stjórnvöld geti þá ekkert gert frekar að svo stöddu segir hann ekkert liggja fyrir í því eins og sakir standa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert