Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, segir boðaðar gjaldskrárbreytingar sveitarfélaga um áramótin muni blása í glæður verðbólgu og þar með auka álögur á skuldsett heimili.
Heimilin í landinu eigi nú þegar undir högg að sækja þar sem að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 hafi allri tekjuöflun ríkisins verið beint að almenningi með nýjum sköttum, hækkun krónutöluskatta og gjalda.
Frá þessu greinir Finnbjörn í jólablaði Vísbendingar.
Þar bendir Finnbjörn á að burðarstoðir velferðarkerfisins hafi markvisst verið holaðar að innan á síðustu árum og það sé ákveðin þversögn fólgin í því að í einu ríkasta landi heims sé ekki mögulegt að halda úti viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Pólitísk forgangsröðun hér á landi fari einfaldlega ekki saman við þarfir samfélagsins.
Finnbjörn segir að launafólki sé ætlað að bera ábyrgð á stöðugleika í fjármálum á Íslandi, því hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki virðist fær um það.
Af öllum þáttum sem ýta undir verðlag á Íslandi segir Finnbjörn að aðeins þáttur launa fái umræðu.
„Á sama tíma er það rétt að launahækkanir hafa verið meiri en í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Það kemur því mörgum á óvart að hlutfall launa af verðmætasköpun hefur lækkað frá 2019. Verðmætasköpun í atvinnulífinu hefur einfaldlega staðið undir launahækkunum síðustu ára og rúmlega það,“ segir Finnbjörn.
„Þó má velta því upp hvort mögulegt hafi verið fyrir kjarasamninga að bremsa hagkerfið af þegar Seðlabankinn blés í húsnæðisbólu og stjórnvöld sátu aðgerðalaus hjá á meðan vöxtur ferðaþjónustan jók þenslu.“
Finnbjörn segir nýlegar tölur úr þjóðhagsreikningum benda til þess að hratt kólni í hagkerfinu.
Áhrif af vaxtahækkunum Seðlabankans sjáist meðal annars í minni einkaneyslu heimila og samdrætti í íbúðafjárfestingu.
„Á móti er ekki að sjá að peningastefnan hafi haft áhrif á vöxt ferðaþjónustunnar. Aðstæður eru um margt líkar þeim sem sköpuðust fyrir efnahagshrunið, stjórnvöld blésu í húsnæðisbólu og kyntu undir þenslu og gerðu þá kröfu að launafólk eitt myndi bera ábyrgð á stöðugleikanum.“
Finnbjörn segir að innan verkalýðshreyfingarinnar ríki samstaða um að neyðarástand í húsnæðismálum landsmanna sé eitt stærsta verkefni komandi kjarasamninga.
Til lengri tíma litið sé ljóst að taka verði allt húsnæðiskerfið í landinu til endurskoðunar hvort sem litið er til framboðs, leigumarkaðar eða húsnæðislánakerfisins.
„Stjórnmálamenn hafa gjörsamlega brugðist umbjóðendum sínum á þessu mikilvæga sviði og samfélag sem ræður ekki við það grunnverkefni að gera borgurunum kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið hlýtur að fá falleinkunn.“
Finnbjörn segir að gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga séu ekki þess fallnar til að vinna gegn verðbólgu.
„Þvert á móti munu þær blása í glæður verðbólgu og þar með auka álögur á skuldsett heimili. Draga þarf lærdóm af neikvæðum áhrifum gjaldahækkana á verðbólgu í byrjun þessa árs.“
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 gefur fá tilefni til bjartsýni að mati Finnbjörns.
„Í því birtist dapurleg samfélagssýn ráðandi stjórnmálamanna í landinu. Vaxtabætur minnka, barnabætur minnka, húsnæðisbætur minnka. Álögur á almenning verða stórauknar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og erfiðari framfærslu. Frumvarpið lýsir óverjandi forgangsröðun.“
Allri tekjuöflun ríkisins sé beint að almenningi með nýjum sköttum, hækkun krónutöluskatta og gjalda.
„Tímabært er að byrðunum verði dreift og að valdar atvinnugreinar, fyrirtæki og fjármagnseigendur greiði eðlilegan skerf til samfélagsins í stað þess að njóta „friðhelgi” af hálfu stjórnmálamanna. Þetta er ekki einungis réttlætismál heldur einnig efnahagsmál, staðreyndin er að gríðarlegur umframhagnaður ákveðinna atvinnugreina ýtir undir launakröfur, svigrúmið er einfaldlega nægt.“
Finnbjörn segir að það sé ákveðin þversögn fólgin í því að í einu ríkasta landi heims sé ekki mögulegt að halda úti viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggja öldruðum hjúkrunarrými.
Á landsbyggðinni finni íbúar fyrir hnignandi heilbrigðisþjónustu og iðulega sé um langan veg að fara til að sækja hana.
Biðlistar á borð við þá íslensku þekkist ekki í velferðarkerfum nágrannalandanna. Vandinn sé ekki bundinn við heilbrigðiskerfið.
„Sérfróðir hafa árum saman bent á að samgönguinnviðir þjóðarinnar séu einfaldlega ekki gerðir fyrir þann fjölda fólks sem nú dvelur í landinu á hverjum tíma. Forustufólk í íþróttahreyfingunni segir íþróttamannvirki mörg hver með öllu óboðleg og í raun ónothæf miðað við alþjóðlega viðteknar kröfur.“
Allt beri þetta að sama brunni. Pólitísk forgangsröðun fari ekki saman við þarfir samfélagsins.