Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir ákvörðun um að reistir verði varnargarðar við bæinn mikið ánægjuefni.
Undirbúningsvinna við að reisa varnargarða við Grindavík hófst í gærkvöldi og ef allt gengur eftir verður hægt að hefja vinnuna 2. janúar.
„Það er mikið ánægjuefni að það skuli vera búið að taka af skarið með þetta og við erum líka þakklát fyrir að það sé ekkert verið að draga hlutina af því að það liggur á að hefja framkvæmdir,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.
Spurður hvort ákvörðunin sé tímabær segir Fannar svo vera.
„Þetta er tímabært í ljósi síðustu atburða. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ályktað um þetta og sent áskorun til ríkisstjórnarinnar um að bregðast við þessari stöðu og það gerði hún bara myndarlega á sínum fundi í morgun,“ segir hann.
„Við fögnum þessu mjög.“