Ísland er vinsæll áfangastaður um áramótin eins og undanfarin ár. Fjöldi erlendra gesta mun dvelja á Íslandi þegar árið 2024 gengur í garð undir tilheyrandi sprengjuregni og tónum lagsins Nú árið er liðið.
Vel gekk að selja gistingu á höfuðborgarsvæðinu yfir áramótin að sögn Kristófers Oliverssonar formanns FHG, fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Jafnvel þótt gefið hafi á bátinn í greininni vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga.
„Eftir jarðskjálftana nærri Grindavík varð mikið högg á bókanir fyrir nóvember, desember og janúar en gamlárskvöldið heldur alveg sínu. Ef einhverjir hættu við þá pöntuðu aðrir í staðinn. Bókanir í gistingu á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld eru alveg í samræmi við væntingar en bókanir fyrir byrjun ársins eru það ekki,“ segir Kristófer en talsverður fréttaflutningur var erlendis af jarðhræringunum í nóvember og desember.
„Eftir jarðhræringar var lýst yfir neyðarstigi og fjölmiðlamenn um allan heim áttu ekki nýjar myndir til að myndskreyta og notuðu margir hverjir myndir af gosinu í Eyjafjallajökli. Skapaði það talsverðan óróa en þegar gosið hófst 18. desember birtust fallegar myndir sem breyttu ásýndinni. En að þetta skyldi fara svona er auðvitað alvarlegt fyrir þá sem selja gistingu og fyrir ferðabransann í heild sinni.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.