Samfylkingin vill færa fólkið í landinu nær hvert öðru, ekki fjær hvert öðru. Byggja á því sem sameinar okkur en ekki því sem sundrar okkur.
Svo ritar Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu.
„Stundum er látið eins og það sé óumflýjanleg þróun í nútímasamfélagi að við fjarlægjumst hvert annað. Að samheldnin láti undan og rætur slitni. Ég veit að það býr djúpstæð þrá meðal landsmanna eftir kröftugri andspyrnu gegn þessari þróun. Okkar sýn er að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær. Meðal annars með því að gæta þess sem gerir samfélagið okkar dýrmætt — þess sem við eigum saman og höfum byggt upp saman hér á Íslandi með harðfylgi og seiglu,“ skrifar Kristrún.
„Hvers konar þjóð við viljum vera? Stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi? Eða lausbundið samansafn einstaklinga sem eiga lítið sameiginlegt nema að búa á þessari eyju norður í Atlantshafi? Svar okkar í Samfylkingunni við þessum spurningum er skýrt: Sterk velferð, stolt þjóð — það er sá valkostur sem við viljum bjóða,“ skrifar Kristrún.
Hún bendir á hversu dýrmæt samheldnin er og að það hafi birst skýrt á síðustu misserum í sterku samfélagi Grindvíkinga.
„Og hjá björgunarsveitarfólki og öðrum sem standa vaktina í almannaþjónustu. Svo ekki sé minnst á samhug almennra borgara sem hafa opnað heimili sín fyrir fjölskyldum frá Grindavík. Á tímum sem þessum sannar samtryggingin gildi sitt — sem við viljum hlúa að og efla,“ skrifar Kristrún.
Grein Kristrúnar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í gær, 30. desember.