Sjálfstæðismenn þurfi að tala skýrar í orkumálum

Halla brást við ummælum Jóns Gunnarssonar í Facebook færslu.
Halla brást við ummælum Jóns Gunnarssonar í Facebook færslu. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, veltir því fyrir sér hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi „oltið um þröskulda samstarfsfélaga sinna í ríkisstjórn“ í raforkumálum.

Framsóknarkonan skrifaði færslu á Facebook í dag þar sem hún brást við ummælum Jóns Gunnarsonar, þingmanns Sjálf­stæðis­flokks­ins og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hann kallaði eft­r nýj­um þing­meiri­hluta um orku­mál vegna um­mæla Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra um raf­orku­mál. 

Halla kveðst sammála Jóni með að „sofandaháttur“ Íslands í raforkumálum „sé að koma okkur í vandræði“. Hún telur flutningskerfið þurfa uppfærslu um allt land og að auka þurfi raforkuframleiðslu í einhverjum landsfjórðungum.

„Það myndi færa okkur betri orkunýtingu og viðhalda þannig orkuöryggi almennings og fyrirtækja í landinu sem er forsenda fyrir efnahagslegum stöðuleika,“ skrifar hún.

Halla Signý Kristjánsdóttir
Halla Signý Kristjánsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðismenn verið handhafar málaflokksins í áratug

Halla nefnir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið á málaflokki raforku síðastliðinn áratug.

„Ef handhafar þessa málaflokks hafa oltið um þröskulda samstarfsfélaga sinna í ríkisstjórn í raforkumálum, þurfa þeir að tala skýrar,“ skrifar hún.

Hún bendir á að 3. áfangi rammaáætlunar hafi verið samþykktur á Alþingi árið 2022. Þá hafi einnig frumvarp verið samþykkt um breytingar á skipulagslögum frá innviðaráðherra sem „miðaði að því að greiða fyrir undirbúningsferli framkvæmda við flutningskerfi raforku“.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk láti ekki „ímyndaða drauga“ standa í farveginum

„Atvinnunefnd undir stjórn Framsóknar lagði fram frumvarp í haust sem á að tryggja betur raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja í samræmi við stefnu stjórnvalda. Á síðasta kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar var samþykkt orkustefna fyrir Ísland sem byggir undir þær ákvarðanir sem þarf að ráðast í,“ skrifar Halla.

„Á nýársnótt er talað um að álfar séu á sveimi og um nýárið sé kynngimagnað andrúmsloft segir í íslenskri þjóðtrú. Þá er líka tími til að bretta upp ermar til góðra verka og ekki láta ímyndaða drauga standa í farveginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert