Tvær rútur með ferðamenn innanborðs lentu í miklum vandræðum vegna mikillar hálku á Eyrarfjallsvegi í Kjós í gærkvöldi.
Önnur rútan fór útaf veginum en hin varð stöðva á veginum vegna hálkunnar en vegurinn var ísi lagður og stórhættulegur. 54 farþegar voru í annarri rútunni en 34 í hinni.
„Það voru rosalegar aðstæður þarna í gær og hætta á ferðum þar sem vegurinn var glerháll. Fólkið í rútunum var ansi hrætt og það var allt flutt í burtu í björgunarsveitarbílum,“ segir Sigurbjörn Hjaltason, bóndi í Kiðafelli í Kjós, við mbl.is.
Spurður út í aðstæður á veginum núna segir Sigurbjörn:
„Ég var að sanda veginn í morgun en brekkurnar við Kiðafell eru mjög hálar enda vegurinn ein glæra. Ég veit ekki hvað þessar rútur voru að þvælast þarna í gærkvöldi. Það voru engin norðurljós að sjá en þessar rútur eru á ferðinni með ferðamenn í sveitinni öll kvöld að leita eftir norðurljósum,“ segir Sigurbjörn.