Stjórnendur Landspítala hafa ákveðið að grípa til grímuskyldu að nýju á spítalanum. Grímuskyldan gildir í öllum samskiptum við sjúklinga, að því er fram kemur á vef spítalans.
„Á Landspítala er nú mikið um yfirlagnir og þar af leiðandi þrengsli. Á sama tíma hafa öndunarfæraveirur sótt mjög í sig veðrið,“ segir þar en grímuskyldan tekur gildi í fyrramálið.
Eftirfarandi ráðstafanir taka gildi á morgun:
- Grímuskylda gildir í öllum samskiptum við sjúklinga.
- Sjúklingar á legudeild þurfa ekki að bera grímu en á göngudeild ber sjúklingum og fylgdarfólki þeirra að vera með grímu.
- Heimsóknargestir og aðrir sem eiga erindi inn á spítalann skulu bera skurðstofugrímu.
- Þar sem COVID hópsýkingar koma upp á deildum skal starfsfólk bera fínagnagrímu.
- Heimsóknir verða takmarkaðar við uppgefna heimsóknartíma sem eru frá 16:30-19:30 virka daga og 14:30-19:30 um helgar. Mælst er til að aðeins einn gestur komi í einu og beri grímu ásamt því að hreinsa hendur við komu á spítalann. Sjá heimsóknartímar á Landspítala
- Heimsóknir systkina á barnaspítalann eru einungis leyfðar í samráði við starfsfólk barnadeildar.
- Deildarstjóri/vaktstjóri hefur heimild til að veita undanþágu frá auglýstum heimsóknartíma.