Síðastliðinn desembermánuður var með þeim kaldari á þessari öld. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands.
Meðalhitinn var langt undir meðaltali á landinu öllu.
Kuldinn var þó ekki í neinni líkingu við kuldatíðina sem ríkti í desember 2022.
„Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á norðanverðu landinu en hlýrra við suðurströndina,” segir í færslu Veðurstofunnar.
Meðalhiti í Reykjavík í desember var -1,2 stig, sem er 1,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Á Akureyri var meðalhitinn -4,4 stig, sem er 3,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -1,8 stig og -0,3 stig á Höfn í Hornafirði. Meðalhiti í byggðum landsins var 2,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14 í desember sem er tveimur dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 23, fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.