Vill 2,5% þak á gjaldskrárhækkanir

Vilhjálmur Birgisson er ekki sáttur með verðhækkunina í Guðlaugu.
Vilhjálmur Birgisson er ekki sáttur með verðhækkunina í Guðlaugu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kveðst óánægður með gjaldskrárhækkanir ýmissa sveitarfélaga. Segir hann að það sé sveitarfélögum til mun meiri hagsbóta að ná niður vöxtum og verðbólgu heldur en að innheimta hærri gjöld.

Mbl.is greindi frá því í gær að mörgum íbúum blöskri áform Akraneskaupstaðar um að hækka gjaldskrá í náttúrulaugina Guðlaugu, en hækkunin er fimmföld. Þar að auki hafi hin ýmsu sveitarfélög kynnt áform um verulega gjaldskrárhækkanir. Spurður út í verðhækkunina í Guðlaugu segir Vilhjálmur:

„Það sló mig ekkert rosalega vel, ég ætla bara vera alveg heiðarlegur með það, og þetta er ekki í anda þess sem við erum að vinna að hér,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Þörf á alvarlegu samtali við sveitarfélögin

Nú standa yfir kjaraviðræður þar sem stefnt er að aðkomu ríkis og sveitarfélaga í svokallaðri þjóðarsátt. Birgir gerir ráð fyrir því að fundað verði með stjórnvöldum á morgun þar sem stjórnvöld muni bregðast við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Í sambandi við gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna almennt segir hann þörf vera á alvarlegu samtali við sveitarfélögin, enda sé þetta ekki í anda þjóðarsáttar.

„Það er alveg ljóst að launafólk og íslensk heimili ætla ekki ein að axla ábyrgð í þessari vegferð sem við erum að reyna teikna hér upp, það verða þau líka að gera.“

Meiri ávinningur fólginn í að lækka verðbólgu og vexti

Hann segir að ef vel tekst til í kjarasamningunum sé markmiðið að fá sveitarfélögin til að endurskoða hækkanirnar og draga úr þeim. Hann bendir á að í lífskjarasamningnum hafi sveitarfélögin skuldbundið sig til að vera með 2,5% þak á gjaldskrárhækkanir og segir hann verkalýðsfélögin horfa til svipaðrar tölu núna.

„Mér finnst eðlilegt að við horfum bara á þá tölu því það er alveg ljóst að ávinningur sveitarfélaga er að mínum dómi miklu meiri í því að þessi leið verði farin, þessi þjóðarsáttarleið,“ segir hann og bætir við:

„Skuldastaða margra sveitarfélaga er gríðarlega mikil og þung. Lækkun vaxta og verðbólgu hefur veruleg áhrif á skuldastöðu þessara sveitarfélaga.“

Hann telur þar að auki að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga hafi gert ráð fyrir mun meiri launahækkunum heldur en verkalýðshreyfingin sé nú að biðja um og því ætti það að veita sveitarfélögum smá svigrúm. 

Eru að „bjóða þessu fólki upp í dans“

Vilhjálmur segir að allt samfélagið verði að standa saman gegn óhóflegum verðhækkunum, hvort sem það sé hjá fyrirtækjum eða sveitarfélögum.

„Við skulum ekki gleyma því að það hefur verið staðið hér á öllum torgum og öskrað á verkalýðshreyfinguna um hversu óábyrg hún sé, hún sé hér að stuðla að óðaverðbólgu, háu vaxtastigi. Nú erum við að bjóða þessu fólki upp í dans, ef þannig má að orði komast, og nú er ábyrgðin hjá þessu fólki.

Ef það er eitthvað að marka þetta fólk sem hefur verið að skamma okkur í verkalýðshreyfingunni þá þarf það að gjöra svo vel og sýna það með afgerandi hætti núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert