Dagur B. Eggertsson borgarstjóri útilokar ekki framboð til Alþingis í næstu þingkosningum.
Þetta segir hann í samtali við Heimildina.
Eins og kunnugt er lætur Dagur af störfum sem borgarstjóri 16. janúar og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, sest í borgarstjórastólinn í hans stað.
Í viðtali við Heimildina kveðst hann ekki sjá fyrir sér aðrar borgarstjórnarkosningar en útilokar ekki framboð í landspólitíkinni.
„Það fylgir því góð tilfinning að skilja vel við hér í borginni og mér þykir mikið vænt um það að Samfylkingin hefur verið að mælast stærsti flokkurinn í borgarstjórn allt þetta ár. Það er alls ekki sjálfgefið eftir allan þennan tíma. Þannig að ég held að við séum að spila úr sterkri stöðu hér í borginni og Samfylkingin á landsvísu er sannarlega að gera það líka,“ hefur Heimildin eftir Degi.
Dagur hefur verið orðaður við forsetaframboð en hann kveðst ekki hafa hugleitt það.