Sveitarstjórn Hrunamannahrepps er reiðubúinn að taka upp og endurskoða gjaldskrárhækkanir, verði að þjóðarsátt um lækkun verðbólgu á almennum vinnumarkaði verður á almennum vinnumarkaði.
Frá þessu greinir sveitarstjórnin í yfirlýsingu. Þar segir að eitt mikilvægasta verkefni í komandi kjaraviðræðum sé að ná niður verðbólgunni og vöxtum í samfélaginu. Eigi að nást árangur í baráttunni við verðbólgu og vexti verði allir að taka höndum saman.
„Þjóðfélagið allt verður að leggjast á árarnar svo koma megi á stöðugleika í efnahagsmálum,“ kemur fram í yfirlýsingunni
Sveitarstjórn Hrunamannahrepps segir að gjaldskrár í hreppnum séu margar hverjar með því lægsta sem gerist.
„Eigi að síður vill sveitarstjórn með þessari yfirlýsingu lýsa sig reiðubúna til að taka upp og endurskoða þær gjaldskrárhækkanir sem samþykktar voru við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 verði af þjóðarsátt allra þeirra aðila sem nefndir eru hér að ofan,“ segir í yfirlýsingunni og er þar vísað til Samtaka atvinnulífsins og stærstu félaga innan Alþýðusambandsins.
Jafnframt minnir sveitarstjórn á fyrri bókun meirihluta frá 16. nóvember sl. um að sveitarstjóri og oddviti munu einnig taka þátt í þeim aðgerðum verði þjóðarsátt að veruleika.