„Þetta eru viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og tiltekinna félaga innan ASÍ. Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ segir Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, um yfirstandandi viðræður breiðfylkingar félaga í ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.
Ekkert samráð hefur verið haft við heildarsamtök opinberra starfsmanna í tengslum við þessar viðræður. „Mér vitanlega hefur enginn gert það, hvorki þessir aðilar, ríkisstjórnin né sveitarfélögin,” segir hann. „Ég held að ekki nokkur maður hafi tekið upp símann til að ræða við einn eða neinn á þeim vettvangi.“
Kjaraviðræður SA og verkalýðsfélaganna sem eru í samfloti við samningaborðið héldu áfram í gær. Búist er við að fulltrúar þeirra fundi með stjórnvöldum í dag til að ræða með hvaða hætti ríkið og sveitarfélögin geti komið að því að liðka fyrir gerð kjarasamninga.
„Ég hef sagt að hagsmunir heimilanna í landinu, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkisins sjálfs af því að ná hér langtímasamningum, sem stuðla að því að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu, eru gríðarlegir. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld og ríkið muni skoða það mjög vel að koma inn í viðræður sem snúa að þjóðarsátt á vinnumarkaði,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.
Stefán segir aðspurður að stjórnvöld geti sótt í varasjóð til að taka á óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum eins og þeim sem gætu liðkað fyrir gerð kjarasamninga. „Við höfum verið að nota varasjóðinn í launahækkanir, en í honum eru 40-50 milljarðar. Síðan hefur ríkið alltaf möguleika á að koma fram með fjárauka. Þetta eru leiðirnar sem til eru. Síðan verða menn að meta hvað þeir geta stigið stór skref.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.