Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir í samtali við mbl.is að erfitt sé að gefa fyrirheit um að draga til baka gjaldskrárhækkanir vegna kjarasamninga þar sem að opinberi vinnumarkaðurinn sé ekki við samningaborðið.
Breiðfylking stéttarfélaga semur nú við Samtök atvinnulífsins um þjóðarsátt og hafa stéttarfélögin beðið sveitarfélög um að draga til baka gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um áramótin.
Í Garðabæ eru gjaldskrárhækkanirnar í ár um 6%, að er kemur fram í frétt Vísis.
Almar segir óljóst hvað stéttarfélög opinberra starfsmanna, viðsemjendur eins og til dæmis BSRB, muni krefjast og bendir hann á að þau séu ekki við samningaborðið.
„Það er til mikils að vinna ef við náum öllum vinnumarkaðnum saman, þá erum við tilbúin að skoða svona hluti. Það er alveg klárt. En þar eru bara ákveðin „ef“ varðandi sveitarfélögin enn þá og þess vegna er erfitt fyrir okkur að gefa út einhverja mjög beitta yfirlýsingu, af því að við getum illa gert það fyrir fram fyrr en eftir samtal við viðsemjendur,“ segir hann og bendir á að Samband íslenskra sveitarfélaga fari með samningsumboð sveitarfélagsins, eins og annarra sveitarfélaga.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tók í svipaðan streng í samtali við mbl.is og sagði vanta opinbera vinnumarkaðinn að borðinu.
„Fólk á skilið að heyra það frá okkur að við erum tilbúin í þessa góðu umræðu á milli aðila (þjóðarsátt) sem ég fagna nú bara mjög, en svo þarf þá að greina og fara aðeins undir húddið á því sem við köllum gjaldskrárhækkanir af því að það er ekkert einsleit umræða. Það þarf aðeins að fara yfir af hverju eru gjaldskrárnar eins og þær eru og svo framvegis,“ segir Almar.
Spurður að því hvort að Garðabær útiloki ekki breytingar á gjaldskránni að því gefnu að opinberi vinnumarkaðurinn taki þátt í þjóðarsáttinni segir hann:
„Mér finnst það bara ekki alveg tímabært að Garðabær gefi út þá yfirlýsingu núna en við verðum svo sannarlega með í svona vegferð. Hún er bara það verðmæt að að sjálfsögðu er það þannig, en þá þarf að aðeins að útvíkka hópinn og skanna aðeins hvort að opinberi markaðurinn sé ekki sama sinnis,“ segir hann en bætir við:
„Ef að það er sami tónn sem næst þar þá finnst okkur það augljóslega vera styrkleikamerki á þessari vegferð og þá þyrftum við að skoða með hvaða hætti væri hægt að horfa á gjaldtökuna.“
En varðandi sjálfar gjaldskrárhækkanir Garðabæjar segir Almar að það séu margir þættir sem þurfi að huga að.
„Í 6% erum við til dæmis ekki með breytingar í okkar leikskólagjaldskrá, hún stendur í stað, hún er í raun að lækka á milli ára. Það er í kringum ákveðnar breytingar sem við erum að gera þar. Svo ræða menn um sorphirðu og þar vandast nú málið aðeins vegna þess sorphirðan er bara þannig sett upp að okkur ber að rukka raunkostnað, ríkið í rauninni setur verkefnið þannig inn á borð,“ segir Almar og útskýrir að ef kostnaður við þjónustuna er að hækka þá beri sveitarfélaginu að rukka í samræmi við raunkostnað.