Flest bendir til að um einangrað tilfelli hafi verið að ræða þegar viðskiptavinur Krónunnar tók eftir ormum í kryddstauk sem hún keypti í versluninni fyrir jólin.
Kryddið sem um ræðir er Jalapeno Evrerything Bagel en Eva Jónasdóttir greindi frá því í samtali við mbl.is á dögunum að henni hefði brugðið í brún þegar hún opnaði staukinn.
Í honum hafi verið allt morandi af ormum og það hafi verið ansi ógeðsleg sjón.
„Sem betur fer er um að ræða einangrað tilfelli, svo við best vitum. Það hafa nokkrir skilað inn vörunni í kjölfar innköllunar og þá gegn fullri endurgreiðslu,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, í samtali við mbl.is.
Spurð hvort haldið verði áfram að selja þessa vöru í Krónunni segir Guðrún:
„Varan hættir í vöruúrvali Krónunnar þegar þær birgðir sem eru á annarri dagsetningu og önnur framleiðslulota en þessi sem um ræðir klárast. Það verður núna í janúar. Við erum einnig með aðra tegund í boði sem er ekki jalapeno heldur „normal“. Hún hættir einnig í vöruúrvali þegar birgðir klárast.“
Hafið þið fengið einhverjar skýringar hjá framleiðanda?
„Við höfum ekki fengið skýringar en þeir harma þetta og ítreka að þeir fylgja ströngum gæðastöðlum sem þeir munu nú yfirfara,“ segir Guðrún.
Hún segir að Krónunni þyki það virkilega leitt að þetta mál hafi komið upp og mögulega valdið þeim viðskiptavinum sem keypt höfðu vöruna óþægindum.
Um leið og Krónan fékk vitneskju um ormana í kryddstaukunum hafði fyrirtækið samband við heilbrigðiseftirlitið og í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness var kryddið innkallað.
„Krónan var búin að innkalla vöruna þegar við komum að málinu þar sem kaupandinn hafði samband við verslunina áður en hann hafði samband við okkur,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins fyrir áðurnefnd bæjarfélög, við mbl.is.
Hörður segir að sendur hafi verið póstur á allar matvöruverslanirnar um hvort rétt hefði verið staðið að innköllun. Sú hafi reynst raunin.
Hann segir að heilbrigðiseftirlitið geri ekki neinar sýnatökur á þessum matvælum nema þegar um matarsýkingar sé að ræða eða eitthvað slíkt.