„Þetta hefur verið helsti samkomustaður mótmæla í áraraðir, Birgir veit það mæta vel,“ segir Askur Hrafn Hannesson, aðgerðasinni og einn þeirra sem stendur að skipulagningu mótmæla Palestínumanna sem tjalda á Austurvelli.
Í samtali við mbl.is ítrekar Askur að leyfi frá Reykjavíkurborg fyrir mótmælunum sé fyrir hendi og að eldvörnum og góðri umgengni sé gætt. Engin lítilsvirðing sé sýnd í garð Austurvallar eða styttunnar af Jóni Sigurssyni forseta með mótmælunum.
Í skoðanaskrifum sínum í Morgunblaðinu í dag lýsti Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þeirri skoðun að Austurvelli væri sýnd vanvirðing með mótmælum Palestínumanna sem fara fram á að stjórnvöld beiti sér strax fyrir fjölskyldusameiningu palestínskra fjölskyldna, sem þegar hafa fengið samþykkt frá Útlendingastofnun.
Sagði hann Austurvöll orðinn að ókeypis tjaldsvæði sem ferðmenn og heimilislausir myndu brátt flykkjast að og sagði „tjaldbúðirnar“ þar að auki ekki standast reglugerð um tjaldsvæði varðandi rennandi vatn, salerni og eldvarnir. Þar væri verið að elda mat og tendra gashitara með tilheyrandi eld- og sprengihættu.
„Hann fer fyrst og fremst ekki með rétt mál því það hefur engin verið að elda þarna í tjöldunum,“ segir Askur og segir fólk ýmist hafa nesti meðferðis eða að góðviljað fólk hafi fært mótmælendunum heitan mat. Stóra tjaldið sé þess að auki búið slökkvitæki og sjúkrakassa og að ávallt sé fylgst með gashitaranum þegar kveikt er á honum.
Varðandi áhyggjur Birgis af rennandi vatni og salernum segir Askur það ekki hafa verið vandamál til þessa. Mótmælendur fái ýmist að nota salerni Dómkirkjunnar við Austurvöll eða fari heim til sín til að nota salerni eða baða sig. Samtökin 78' sem eru staðsett á Suðurgötu hafi einnig veitt mótmælendum aðgengi að rennandi vatni.
„Svo erum við með mjög strangar umgengisreglur sem eru ritaðar á spjöld inni í tjaldi og líka varðandi framkomu hvert við annað,“ segir Askur.
Spurður hvort skipuleggjendur og mótmælendur hafi einhverjar áhyggjur af öryggi segir Askur þau almennt örugg um sig. Engu að síður hafi menn í tvígang komið að tjaldinu og hreytt fúkyrðum í mótmælendur. Annar þeirra hafi verið sérstaklega ógnandi og lögreglan að lokum handtekið hann.
„Við tókum líka tjöldin niður á gamlársdag einmitt af öryggisástæðum og vegna eldhættu og settum upp að nýju á nýársdag,“ segir Askur. Segir hann einnig hafa komið upp atvik, aðfaranótt sunnudags, þar sem nokkrir unglingspiltar köstuðu litlum flugeldum, svokölluðum „vítum“ nálægt tjöldunum. Það hafi vissulega getað skapað eldhættu, en þá ekki af völdum mótmælenda.
Askur segir ummæli Birgis um að þarna sé komið upp ókeypis tjaldsvæði sem fólk muni flykkjast að vera furðuleg. Það sé eins konar mótsögn að setja aðstæðurnar á Austurvelli fram sem öfundsverðar, enda séu þær ekki fullnægjandi rétt eins og Birgir bendi sjálfur á.
„Fólkið sem er að tjalda þarna gerir það ekki vegna þess að þau hafi ekki í önnur hús að venda, heldur til að sýna friðsamlegt andóf gegn aðgerðarleysi stjórnvalda,“ segir Askur og kveðst stórefast um að aðrir fari að leita þangað til að tjalda.
Hann segir það af og frá að mótmælin séu lítilsvirðing við Austurvöll enda hafi hann í áraraðir verið vettvangur fyrir lýðræðisleg og friðsamleg mótmæli.
„Í fyrsta lagi erum við ekki að gera þetta í trássi við nein lög og höfum aflað okkur viðeigandi leyfi og Reykjavíkurborg veit af þessu. Lögreglan veit líka af þessu og hefur ekki haft neitt út á þetta að setja,“ segir Askur og bætir við að lögregluþjónar hafi meira að segja stundum stoppað og spjallað eða þegið kaffi í stóra tjaldinu.
Einnig hafi nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar komið á svæðið og rætt við mótmælendur. Þar á meðal eru Andrés Ingi Jónsson og Gísli Rafn Ólafsson, þingmenn Pírata, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, sem hafi haft kaffi og bakkelsi meðferðis handa mótmælendum.
Hann segir þó enn ekki bóla á viðbrögðum eða fundarboðum frá viðeigandi ráðherrum, en mótmælendur hafa óskað eftir fundi með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Við fullyrðingu Birgis um að styttan af Jóni Sigurðssyni forseta sé ítrekað vanvirt með mótmælum, kveðst Askur ekki getað svarað fyrir önnur mótmæli en að í tilfelli þessara mótmæla sé styttunni engin vanvirðing sýnd.
„Styttan af Jóni Sigurðssyni veitir okkur félagsskap, enda er hann einn þekktasti mótmælandi Íslandsögunnar,“ segir Askur kíminn og bendir einnig á minnisvarðann um borgarlega óhlýðni sem prýði Austurvöll.
Hann ítrekar að ávallt hafi verið leyfi fyrir hendi frá Reykjavíkurborg um afnot af landinu til mótmæla og að skipuleggjendur tekið skýrt fram við borgarstarfsmenn að tjöldum yrði slegið upp og ekki fengið neinar mótbárur við því. Leyfið hafi tvisvar verið framlengt og kveðst Askur sjá fram á að þau muni halda því áfram þar til árangri hafi verið náð.
Kröfur mótmælendanna eru þríþættar: að stjórnvöld standi við fjölskyldusameiningarnar, að palestínskt flóttafólk sem hingað er komið fái hæli og að ráðherrar verði við ósk þeirra um fund, þ.e. utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og forsætisráðherra.
„Við erum hvergi nærri hætt, baráttan er enn í hámarki og við verðum þarna eins lengi og við þurfum.“